New York Times greinir frá og hefur eftir starfsmanni sem vinnur að því að þingið staðfesti útnefningu Kavanaugh sem hæstaréttardómara. Christine Blasey Ford hefur sakaða hann um kynferðislegt ofbeldi sem hún segir hafa átt sér stað sumarið 1982 er hún var fimmtán ára og Kavanaugh 17 ára. Kavanaugh hefur þvertekið fyrir ásakanir Ford.
Teymi Kavanaugh viðurkennir reyndar að dagatölin muni ekki afsanna ásakanir Ford en þær munu verða lagðar fram til þess að sýna hvernig Kavanaugh eyddi tíma sínum sumarið 1982. Partýið eða veislan sem árásin er sögð hafa verið framin í er ekki skráð á dagatöl hans en í frétt New York Times segir að á dagatölin séu skráðar aðrar veislur.
Dagatölin sýna að Kavanaugh eyddi megninu af sumrinu á ströndinni eða með foreldrum sínum en þegar hann var staddur heima hjá sér í bænum sem árásin er sögð hafa átt sér stað var hann yfirleitt í körfubolta, í kvikmyndahúsum eða í viðtölum vegna inntöku í háskóla.
Ford kemur fyrir nefndina á fimmtudag
Í gær var staðfest að Ford myndi mæta fyrir þingnefndina til þess að svara spurningum þingmanna um ásakanirnar og í dag var staðfest að sá fundur verði haldinn á fimmtudaginn. Þar mun Ford, ásamt Kavanaugh, mæta.Í frétt New York Times um fundinn segir að það eina sem óvíst sé um þann fund sé hvort Repúblikanar í nefndinni, sem eru í meirihluta, muni fá lögfræðing eða annan aðila til þess að spyrja Ford út í ásakanirnar, í stað þess að gera það sjálfir.
Eru leiðtogar repúblikana sagðir hafa áhyggjur af því að það kunni að líta illa út að nefndarmenn repúblikana, sem allir eru karlmenn, gangi hart að Ford vegna ásakanna hennar í garð Kavanaugh.