Fótbolti

Bað um að fá að vera lengur í fangelsi til að geta hitt Totti

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Francesco Totti er í dýrlingatölu hjá Roma.
Francesco Totti er í dýrlingatölu hjá Roma. vísir/getty
Aðdáendur íþróttamanna ganga sumir hverjir ansi langt til þess að hitta goðin sín en einn Ítali gekk líklega lengra heldur en flestir fyrir tólf árum síðan þegar hann þráði hvað heitast að hitta Francesco Totti, fyrrverandi leikmann Roma og ítalska landsliðsins.

Totti og félagar hans í ítalska landsliðinu urðu heimsmeistarar árið 2006 og fóru á mikinn kynningartúr skömmu eftir að lyfta bikarnum í Þýskalandi eftir sigur á Frökkum í frægum úrslitaleik. Ein heimsókn þeirra var í fangelsi í Rómarborg.

„Allir fangarnir voru mjög glaðir því fyrir þá að sjá fótboltamenn í fangelsinu var eins og fyrir okkur að sjá páfann,“ segir Totti í viðtali við ítalska ríkissjónvarpið en hann er þessa dagana að auglýsa ævisögu sína sem að kemur út í dag.

„Það var einn strákur þarna sem öskraði og öskraði. Hann þráði ekkert heitar en að taka mynd með mér en enginn hleypti honum að mér. Á endanum náði hann að komast upp að mér og fékk mynd. Ég skildi ekki hvers vegna hann var svona rosalega áhugasamur.“

Það var ekki fyrr en Totti var kominn út fyrir fangelsisveggina að honum var sagt hvers vegna þessi strákur lagði svo mikið á sig að komast í gegnum allan hópinn og upp að Roma-goðsögninni.

„Mér var tjáð að þessi strákur átti að losna úr fangelsinu viku áður en hann bað um að fá að vera viku lengur því hann vissi að ég væri á leiðinni í heimsókn. Hann hótaði því að gera eitthvað brjálað til að enda aftur í fangelsinu ef hann fengi ekki að dvelja viku lengur og hitta mig,“ segir Francesco Totti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×