Patrick Pedersen var valinn besti leikmaður Pepsideildar karla af leikmönnum deildarinnar. Valið var kunngjört á heimasíðu KSÍ í dag.
Pedersen varð Íslandsmeistari með Val eftir 4-1 sigur á Keflavík. Hann varð jafnframt markahæstur í deildinni með 17 mörk og fær fyrir það gullskóinn.
Leikmenn deildarinnar völdu Willum Þór Willumsson sem efnilegasta leikmanninn en hann spilaði stórt hlutverk í liði Breiðabliks sem endaði í öðru sæti.
Þá var Þórddur Hjaltalín valinn dómari ársins. Hann var að dæma sitt síðasta tímabil og leggur flautuna á hilluna nú þegar mótinu er lokið.
