Innlent

Lilja kynnir stuðning við einkarekna fjölmiðla og íslensku

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lilja Alfreðsdóttir í ræðustól Alþingis.
Lilja Alfreðsdóttir í ræðustól Alþingis. vísir/vilhelm
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra kynnir aðgerðir stjórnvalda sem miða að því að styrkja íslenska tungu á blaðamannafundi í Veröld - húsi Vigdísar, á morgun kl. 14.

Til grundvallar aðgerðunum er eindreginn vilji stjórnvalda að tryggja framgang og framtíð íslenskunnar, meðal annars með stuðningi við íslenska bókaútgáfu, einkarekna fjölmiðla, máltækni og menntun.

„Það liggur alveg fyrir og stendur í stjórnarsáttmálanum að við ætlum að skoða starfsumhverfi íslenskra fjölmiðla til að styrkja það. Eitt af því sem hefur verið nefnt er skattalegt umhverfi og ég hef í hyggju að koma með tillögur sem miða að þessu,“ sagði Lilja um málið í desember.

Nálgast yrði málið heildstætt.

„Það verður tekið tillit til allra þeirra fjölmiðla sem eru starfandi og til þess hvernig samkeppni þeir eru í, við erlenda aðila og annað.“

Hún væri líka að nálgast málið út frá því að setja íslenskuna í öndvegi.

„Því öflugri fjölmiðla sem við erum með, því meiri líkur eru á því að við náum að styrkja umhverfi íslenskunnar.“

Hún sagðist geta hugsað sér að leggja fram þingsályktunartillögu um íslenskuna. Hafa svo fimm liði undir því, það eru fjölmiðlar, kvikmyndir, bókmenntir, tónlist og máltækni. 


Tengdar fréttir

Þingið vill lægri skatt á fjölmiðlaáskrift

Tillaga nefndar um einkarekna fjölmiðla um að færa virðisaukaskatt af áskriftum íslenskra fjölmiðla niður í lægra skattþrep nýtur mikils stuðnings á Alþingi. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er þó á móti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×