Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir 29 milljarða króna afgangi á næsta ári eða sem nemur einu prósenti af vergri landsframleiðslu. Það er minnsti afgangur fjárlaga samkvæmt markmiðum í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til fimm ára.

Hvernig mun hinn almenni borgari finna fyrir þeim breytingum sem fram koma í fjárlagafrumvarpinu?
„Vonandi með því að við höldum áfram þeim stöðugleika sem hér hefur verið. Við erum sömuleiðis að létta álögum, styðja betur við barnafjölskyldur í landinu. Við hækkum persónuafsláttinn með sérstakri hækkun. Þannig að það skilar sér í auknu mæli til tekju lágra þótt ekki sé um verulega hækkun á persónuafslættinum að ræða en engu að síður mikilvæga,“ segir Bjarni.

„Við erum að fjármagna átak í geðheilbrigðismálum, við förum í ýmsar framkvæmdir sem við höfum þurft að láta sitja á hakanum á undanförnum árum. Eins og einstakar byggingar, til dæmis Hús íslenskunnar. Landhelgisgæslan sér nú fram á að geta farið að fá nýjar þyrlur. Það eru mörg slík verkefni sem við erum að klára í þessum fjárlögum,“ segir Bjarni. Fjármálaráðherra segir skipta miklu máli að tekist hafi að lækka skuldir ríkissjóðs mikið á undanförnum árum en þær hafa lækkað um 658 milljarða frá árinu 2011 eða úr 86 prósentum af landsframleiðslu í 31 prósent á þessu ári. Þar með hafi vaxtagreiðslur lækkað um 40 milljarða á ári.
Ríkisstjórnin hafi þegar komið til móts við verkalýðshreyfinguna á þessu ári og geri það áfram í fjárlögum næsta árs til að mynda með auknum stuðningi við barnafjölskyldur. Þá lækkar tryggingagjald á fyrirtæki um 8 milljarða í áföngum á næsta og þar næsta ári.

„Þessi fjárlög eru sókn til bætra lífskjara á mjög traustum grunni. Við erum að ná skuldaviðmiðinu í fyrsta sinn frá því lög um opinber fjármál voru sett. það er að segja 30 prósenta viðmiðinu og við erum að gera betur á öllum sviðum samfélagsins. Við erum að styðja við betra líf á landinu,“ segir Bjarni Benediktsson.