Molinn var leiðréttur og beðist afsökunar á fréttinni á Fréttablaðið.is.
„Ég vildi bara tilkynna ykkur, kæru FB vinir, að fréttir af starfslokum mínum hjá Icelandair í Markaðnum í dag eru stórlega ýktar og flokkast sennilega undir „fake news",“ segir Helgi.
Í Skotsilfri Markaðarins var vísað í heimildir þess efnis að hann væri hættur.
„Ég sá mig knúinn til að leiðrétta þessar rangfærslur þ.s. ég hef fengið fjölda símtala og skilaboða í dag frá fjölskyldu, vinum, samstarfsfélögum ofl. Ég hef unnið hjá Icelandair mörg undanfarin ár í krefjandi og skemmtilegum störfum með frábæru samstarfsfólki og hlakka til að taka þátt í frekari uppbyggingu fyrirtækisins.“
Helgi hefur verið nefndur til sögunnar sem mögulegur arftaki Björgólfs Jóhannssonar sem forstjóri Icelandair Group. Bogi Nils Bogason gegnir starfinu tímabundið eftir að Björgólfur lét af störfum í ágúst. Eins og fram hefur komið mun erlent ráðgjafafyrirtæki koma að ráðningu nýs forstjóra.