Eyþór leggur til að borgin „hafi frumkvæði að því að velja heppilegan stað fyrir uppbyggingu á öðru sjúkrahúsi í borginni með tilliti til samgangna, íbúa- og atvinnuþróunar og öryggismála. Starfshópur yrði skipaður undir forystu Reykjavíkurborgar með það í huga að niðurstaða gæti legið fyrir um mitt ár 2019,“ segir um tillöguna í Morgunblaðinu í dag.
Anna Sigrún virðist snúast í hringi varðandi tillöguna.

„Hins vegar er áhersla Eyþórs á lækna í þessu vísbending um að þarna er á ferðinni tillaga um uppbyggingu sjúkrahúss fyrir sérgreinalækna og líklega liggur þar hundurinn grafinn. Þetta er ekki framsækið þar sem sú hugmynd hefur áður verið viðruð og horft til gamla Borgarspítalans í því tilliti.“
Anna Sigrún segir það fásinnu að Reykjavíkurborg taki forystu og þannig afstöðu í þeim hugmyndafræðilegu átökum sem geysi í ríkisstjórnarsamstarfinu, eins og hún kemst að orði.

Framkvæmdir eru hafnar við nýjan meðferðarkjarna á Hringbrautinni. Verið er að gera bílastæði við BSÍ og úti við Eiríksgötu er verið að leggja nýja vatnslögn. Framkvæmdir verða farnar á fullt í haust og er áætlað að þær standi yfir í tuttugu mánuði.
Þingmenn Miðflokksins lögðu fram þingsályktunartillögu í janúar um að ný, óháð og fagleg staðarvalsgreining yrði unnin fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.