Enski boltinn

Adriano mætti fullur á æfingar hjá Inter Milan

Bjarni Þórarinn Hallfreðsson skrifar
Adriano var á sínum tíma einn heitasti framherji heims
Adriano var á sínum tíma einn heitasti framherji heims Getty
Á tíma sínum hjá Inter Milan, mætti brasilíski framherjinn Adriano undir áhrifum áfengis á hverja einustu æfingu Inter eftir fráfall föður síns.

Adriano var á miðjum fyrsta áratugi þessarar aldar einhver heitasti framherji fótboltans, en eftir fráfall föður síns náði ferill hans aldrei þeim hæðum sem búist var við af honum. 

 

Faðir Adriano lést árið 2004, en sama ár gekk hann til liðs við Inter Milan frá Parma þar sem hann sló í gegn.

 

"Fráfall föður míns skildi eftir gríðarlegt tómarúm, ég var mjög einmana. Eftir dauða hans, varð allt verra og ég einangraði mig," sagði Adriano í viðtali við brasilískt tímarit.

 

Adriano byrjaði vel hjá Inter en síðan fór ferill hans að dala sökum þunglyndis.

 

"Ég fann aðeins fyrir gleði þegar ég drakk, og ég gerði það á hverju kvöldi. Ég drakk allt sem ég átti, vín, viskí, vodka og bjór. Mikið af bjór."

 

"Ég stoppaði ekki að drekka og á endanum þurfti ég að yfirgefa Inter. Ég vissi ekki hvernig ég átti að fela þetta, ég mætti fullur á morgunæfingarnar. Ég mætti alltaf, þótt svo ég hafi verið mjög fullur. Inter sagði við blöðin að ég væri frá vegna tognunar."

 

Eftir tíma sinn hjá Inter fór Adriano til Flamengo í heimalandinu árið 2009 þar sem hann stóð sig vel, skoraði 19 mörk í 32 leikjum.

 

Eftir tíma sinn hjá Flamengo náði Adriano aldrei aftur sömu hæðum. Á árunum 2010 til 2016 spilaði hann aðeins 10 leiki og skoraði í þeim eitt mark.

 

Adriano er í dag 36 ára en hefur ekki enn lagt skónna á hilluna, þrátt fyrir að hafa ekki spilað fótbolta í fjögur ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×