Handbolti

Silfurstrákar bjuggust við að ná langt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Haukur Þrastarson, besti leikmaður mótsins, með silfrið í gær.
Haukur Þrastarson, besti leikmaður mótsins, með silfrið í gær. fréttablaðið/eyþór
Leikmenn og þjálfarar U-18 ára liðs karla í handbolta sem vann til silfurverðlauna á EM í Króatíu um helgina komu til landsins í gær. Strákarnir fengu góðar móttökur í höfuðstöðvum HSÍ þar sem haldið var hóf þeim til heiðurs.

„Þetta var frábært þótt það sitji enn í manni að hafa ekki klárað úrslitaleikinn,“ segir Dagur Gautason, einn af lykilmönnum íslenska liðsins, í samtali við Fréttablaðið.

Þetta eru fimmtu verðlaunin sem íslenskt karlalið vinnur til á stórmóti yngri landsliða. Árið 1993 vann Ísland til bronsverðlauna á HM U-21 árs í Egyptalandi. Í því liði voru leikmenn á borð við Ólaf Stefánsson, Dag Sigurðsson og Patrek Jóhannesson. Ásgeir Örn Hallgrímsson, Arnór Atlason og Björgvin Páll Gústavsson fóru fyrir íslenska U-18 ára liðinu sem varð Evrópumeistari 2003.

Heimir Ríkharðsson stýrði U-18 ára liðinu þá, líkt og hann gerir í dag. Árið 2009 lenti Ísland í 2. sæti á HM U-18 ára og sex árum síðar í 3. sæti á sama móti.

Fimmti í úrvalsliði Haukur Þrastarson var valinn besti leikmaður EM 2018 en Selfyssingurinn átti frábæra leiki í Króatíu. Hann var jafnframt þriðji markahæsti leikmaður mótsins. Þá var Dagur valinn í úrvalslið EM. Hornamaðurinn snjalli frá KA skoraði fjögur mörk í úrslitaleiknum gegn Svíþjóð og 29 mörk alls á mótinu.

„Þetta kom svolítið á óvart en ég er mjög stoltur,“ segir Dagur. Hann er fimmti Íslendingurinn sem er valinn í úrvalslið stórmóta yngri landsliða karla. Ásgeir Örn og Arnór voru valdir í úrvalslið EM U-18 ára 2003, Aron Pálmarsson og Ólafur Guðmundsson í úrvalslið HM U-18 ára 2009 og Óðinn Þór Ríkharðsson í úrvalslið HM U-18 ára 2015.

Fyrir utan Hauk er Viktor Gísli Hallgrímsson sennilega þekktasta nafnið í íslenska silfurliðinu. Hann hefur varið mark Fram undanfarin tvö tímabil og vakið athygli fyrir góða frammistöðu. Viktor segir að íslensku strákarnir hafi fyrirfram verið nokkuð bjartsýnir á að ná góðum árangri á EM í Króatíu.

Þýskaland gott viðmið

„Við bjuggumst alveg við að ná langt. Þýskaland er með sterkari liðum í þessum aldursflokki og við höfum alltaf strítt þeim. Það var gott viðmið,“ segir Viktor en Ísland vann Þýskaland, 22-23, í fyrri leik sínum í milliriðli.

Með sigrinum tryggði íslenska liðið sér sæti í undanúrslitum þar sem það vann heimalið Króatíu, 30-26. Viktor var nokkuð ánægður með frammistöðu sína á EM. „Ég var mjög sáttur með byrjunina en ég hefði mátt verja fleiri skot í síðustu tveimur leikjunum,“ segir Viktor að lokum.


Tengdar fréttir

Svekktur og sáttur á sama tíma

Heimir Ríkharðsson, þjálfari U-18 ára liðs karla í handbolta, sem hlaut silfurverðlaun á Evrópumótinu í gær, segir að leikmenn liðsins séu margir framarlega í sínum aldursflokki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×