Eiríkur er að fara á morgun til Írlands að keppa í Race Around Ireland sem er rúmlega 2.200 kílómetra leið. Hann ætlar sér að verða innan við 100 klukkutíma að fara þennan hring.
Brautarmetið á sjálfur Christoph Strasser, margfaldur heimsmeistari í ofurmaraþonum hjólreiðanna. Hann hefur meðal annars unnið Race Across America fimm sinnum. Strasser kom í mark árið 2013 á 93 klukkustundum og 16 mínútum og var með meðalhraða upp á 23,69 km/klst. Það met ætlar Eiríkur að slá. „Ég er ekki í besta formi heims. En það gekk vel í WOW í sumar en þetta fer eftir veðri og hvernig maður kemst í gang. Markmiðið er allavega að koma fyrstur í mark.“

Þess má geta að Eiríkur bætti brautarmetið í WOW Cyclothoni í sumar um sex klukkustundir. „Núna er lítið um æfingar, bara að teygja og liðka sig og ná bólgum út. Svo er verið að græja ljós til að rata í myrkrinu og að ég haldist betur vakandi á nóttunni. Það verður í fyrsta skipti sem ég prófa það.“

„Ég á nóg inni. Ég er þungur, þarf að létta mig og þá er ég farinn að hjóla hraðar og ég er ekki búinn að toppa mig – langt frá því.
Hann er búinn að vinna Ameríkuhjólreiðarnar fimm sinnum og ætlar að ná í sjötta titilinn á næsta ári og ég veit að hann mun verða í besta formi lífs síns.
Hann hefur ekki haft neina samkeppni í ár og ég vona að það verði ég sem veiti honum hana. Það er markmiðið.“
Hægt er að fylgjast með ævintýrum Eiríks hér.