Fótbolti

Stuðningsmenn Genoa þögðu í 43 mínútur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Genoa vann sinn fyrsta leik en skoraði bæði mörkin sín á meðan stuðningsmennirnir þögðu.
Genoa vann sinn fyrsta leik en skoraði bæði mörkin sín á meðan stuðningsmennirnir þögðu. Vísir/Getty
Ítalska félagið Genoa lék í gær sinn fyrsta leik á tímabilinu viku eftir að önnur lið (nema Sampdoria) hófu leik í Seríu A. Ástæðan var hrun Morandi-brúarinnar 14. ágúst síðastliðinn.

Fimm dögum eftir þetta skelfilega slys þá var ákveðið að fresta leikjum Genoa og Sampdoria í fyrstu umferðinni. Í gær var hins vegar komið að annarri umferð deildarkeppninnar og þá átti Genoa heimaleik.

Leikmenn Genoa og Empoli minntust þeirra sem fórust í slysinu með mínútuþögn en stuðningsfólk Genoa gerði meira en það.





Allt stuðningsfólk Genoa þagði fyrstu 43 mínútur leiksins til minningar um þá 43 sem dóu í þessu hræðilega slyi. Það heyrðist ekki mikið í stuðningsfólkinu á þessum 43 mínútum.

200 metra hluti Morandi brúarinnar hrundi skyndilega með þeim afleiðingum að allt þetta fólk hrapaði til bana í bílum sínum.

Genoa vann leikinn 2-1 en bæði mörk liðsins komu á fyrstu tuttugu mínútunum. Stuðningsmenn Genoa fögnuðu ekki þegar lið þeirra skoraði.

Mikil fagnaðarlæti brutust hins vegar út á 43. mínútu leiksins þegar nöfn þeirra sem létust voru birt á stóra skjánum á leikvanginum.

Það sem eftir var leiksins hegðuðu stuðningsfólk Genoa sér venjulega og fagnaði síðan saman góðum sigri í leikslok.

Lið Sampdoria er líka frá Genóaborg en byrjaði tímabilið sitt á útivelli á móti Udinese. Sampdoria tapaði leiknum 1-0.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×