Stjarnan tekur á móti Val í Pepsi-deild karla í kvöld í uppgjöri tveggja efstu liða deildarinnar. Margir líta á þennan leik á Samsung vellinum í Garðabæ sem hálfgerðan úrslitaleik um Íslandsmeistaraititlinn í ár.
Leikurinn hefst klukkan 19.15 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Hörður Magnússon og félagar í Pepsimörkunum verða með upphitun fyrir leik og gera hann síðan upp eftir hann.
Liðin hafa mæst sjö sinnum í Pepsi-deildinni með núverandi þjálfara eða frá því að Ólafur Jóhannesson tók við Valsliðinu fyrir 2015 tímabilið.
Valsmenn hafa unnið fjóra af þessum leikjum og fengið níu fleiri stig (14 á móti 5).
Það sem er athyglisvert við það er að Stjörnumenn hafa komist yfir í fimm leikjanna en aðeins einu sinni náð að vinna. Stjörnumenn komust meira að segja tvisvar sinnum yfir í leik liðanna í maí en Valsmenn jöfnuðu í bæði skiptin.
Eini sigur Stjörnunnar á Val á síðustu fjórum tímabilum kom á Valsvellinum á Hlíðarenda 3. október 2015 eða í lokaumferðinni það sumar.
Þetta var jafnframt fyrsti heimaleikur Valsmanna á nýja gervigrasinu sínu á Hlíðarenda eftir að hafa skipt út grasinu fyrr um sumarið.
Stjörnumenn hafa alls verið yfir í 162 mínútur í þessum sjö leikjum en það hefur samt bara skilað þeim fimm stigum. Valsmenn sem hafa verið yfir í 153 mínútur, eða níu mínútum skemur, hafa aftur á móti fengið fjórtán stig.
Síðustu sjö leikir Vals og Stjörnunnar í Pepsi-deild karla:
- 2018 -
18. maí á Hlíðarenda: 2-2 jafntefli (Stjarnan komst í 1-0 og 2-1)
- 2017 -
24. september í Garðabæ: 2-1 sigur Vals
9. júlí á Hlíðarenda: 1-1 jafntefli (Stjarnan komst í 1-0)
- 2016 -
11. september í Garðabæ: 3-2 sigur Vals (Stjarnan komst í 2-0)
5. júní á Hlíðarenda: 2-0 sigur Vals
- 2015 -
3. október á Hlíðarenda: 2-1 sigur Stjörnunnar (Stjarnan komst í 2-0)
10. júlí í Garðabæ: 2-1 sigur Vals (Stjarnan komst í 1-0)
Jöfnunarmörk Valsmanna í leikjunum frá 2015-2018:
1 - Patrick Pedersen (2018)
1 - Sigurður Egill Lárusson (2018)
1 - Bjarni Ólafur Eiríksson (2017)
1 - Andreas Albech (2016)
1 - Sjálfsmark (2015)
Sigurmörk Valsmanna í leikjunum frá 2015-2018:
1 - Andreas Albech (2016)
1 - Kristinn Freyr Sigurðsson (2015)
Skipting forystu í Pepsideildar leikjum Vals og Stjörnunnar frá 2015-2018:
315 mínútur - Jafnt
162 mínútur - Stjarnan yfir (samtals 5 stig)
153 mínútur - Valur yfir (samtlas 14 stig)
Hafa komist yfir í fimm leikjum á móti Val frá 2015 en aðeins unnið einu sinni
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Mest lesið



Sveindísi var enginn greiði gerður
Fótbolti



Landsliðskonurnar neita að æfa
Fótbolti


Aron ráðinn til FH
Handbolti

