Framfaramaðurinn Harald Tom Nesvik er nýr sjávarútvegsráðherra Noregs. Hann var skipaður í embættið á aukafundi ríkisstjórnarinnar sem blásið var til í dag.
Per Sandberg, forveri Nesvik í embætti, sagði af sér í morgun eftir að hafa brotið siðareglur norskra ráðherra. Það gerði hann með því að tilkynna ekki um utanlandsferð sína til Írans, eins og Vísir greindi frá í morgun.
Harald Tom Nesvik hefur verið þingmaður norska Framfaraflokksins, Fremskrittspartiet, undanfarin 20 ár. Þá var hann þingflokksformaður Framfaraflokksins um nokkurra ára skeið. Nesvik var orðaður við sjávarútvegsráðherrastöðuna í vor þegar Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, stokkaði upp í ríkisstjórn sinni eftir að dómsmálaráðherrann Sylvi Listhaug sagði starfi sínu lausu. Fyrrnefndur Sandberg tók við stöðu hennar um stund áður en hann var aftur fluttur í sjávarútvegsráðuneytið.
Nesvik fæddist í Álasundi árið 1966 og hefur nánast verið í Framfaraflokknum allar götur síðan. Hann tók sæti í samsteypustjórn Ernu Solberg árið 2013 og var um leið kjörinn þingflokksformaður Framfaraflokksins. Hans hefur hvað helst verið minnst á alþjóðavettvangi fyrir að tilnefna þáverandi Bandaríkjaforseta George W. Bush og forsætisráðherra Bretlands Tony Blair til friðarverðlauna Nobels árið 2002. Honum þótti þeir eiga verðlaunin skilið fyrir baráttu þeirra gegn hryðjuverkum.
