Handbolti

Fimm marka tap gegn Svíum í úrslitaleiknum á EM

Anton Ingi Leifsson skrifar
Haukur skoraði fjögur mörk í dag.
Haukur skoraði fjögur mörk í dag. Mynd/Heimasíða M18-Euro 2018
Íslenska landsliðið í handbolta skipað drengjum átján ára og yngri tapaði 32-27 í úrslitaleik gegn Svíþjóð en EM fór fram í Króatíu.

Íslenska liðið hafði spilað stórskemmtilegan og árangursríkann handbolta allt mótið. Í úrslitaleiknum biðu frændur okkar frá Svíþjóð sem burstuðu Dani í undanúrslitunum.

Svíarnir byrjuðu af miklum krafti og virtist smá skrekkur í okkar mönnum. Svíþjóð komst í 5-1 en okkar menn rönkuðu hægt og rólega við sér. Þeir jöfnuðu í 9-9 og staðan í hálfleik var 12-12.

Áfram var jafnræði með liðunum en Svíar breyttu stöðunni úr 20-20 í 23-20 um miðjan síðari hálfleik. Það bil náðu okkar drengir aldrei að brúa og lokatölur fimm marka sigur Svía, 32-27.

Stórkostlegur árangur íslenska liðsins. Eiríkur Þórarinsson var markahæstur íslenska liðsins með sjö mörk en næstur komu þeir Haukur Þrastarson og Dagur Gautason með fjögur mörk.

Íslendingar réðu illa við Ludvig Hallback sem skoraði ellefu mörk fyrir Svíana. Næstur kom Valter Chrintz með átta mörk.  Nítján af 32 mörkum Svía skoruðu þessir tveir piltar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×