Talið er líklegt að skurðgrafa hafi rofið raflínu í jörðu í Hveragerði um klukkan þrjú í gærdag, með þeim afleiðingum að nánast allt atvinnulíf í bænum lamaðist langt fram á kvöld. Halldór Guðmundur Halldórssson, sem var á bilanavaktinni hjá RARIK, segir að rafmagnið hafi aftur farið að koma inn um tíuleyið og að það hafi nær alfarið verið komið á um miðnætti.
Halldór segir að rafmagn hafi verið keyrt á bæinn með tveimur rafmagnslínum, annarri frá Þorlákshöfn og hinni frá Selfossi, og þremur dísel-rafstöðum. Ein rafstöð var sótt á Vík og tvær á Sauðárkrók að sögn Halldórs.
Sjá einnig: Íbúar Hveragerðis hvattir til að spara rafmagn
Hann segir að spenninum, sem brann yfir í gærkvöldi, verði skipt út í dag. Annar spennir kemur í bæinn í dag og verður dagurinn og kvöldið nýtt til að tengja hann.
Rafmagnsleysið hafði ýmis áhrif á atvinnulífið í Hveragerði í gær, til að mynda hjá Kjörís þar sem eitthvað af afurðum skemmdist. Halldór segir að atvinnurekendur í bænum ættu að geta tekið gleði sína á ný enda ættu rafmagnslínurnar og rafstöðvarnar sem komið var fyrir í gærkvöld að ráða við rafmagnsþörf bæjarins.
