Innlent

Hlaupið nú eitthvert stærsta jökulhlaup í Skaftá frá upphafi mælinga

Atli Ísleifsson skrifar
Í Eldhrauni flæðir vatn enn yfir veg á kafla en það hefur þó sjatnað nægilega til þess að ákveðið hefur verið að hleypa almennri umferð þar í gegn.
Í Eldhrauni flæðir vatn enn yfir veg á kafla en það hefur þó sjatnað nægilega til þess að ákveðið hefur verið að hleypa almennri umferð þar í gegn. Ágúst Freyr Bjartmarsson

Skaftárhlaup stendur enn yfir en er í rénun. Rennsli árinnar við Sveinstind fer nú mjög minnkandi, og mælist nú um 180 rúmmetrar á sekúndu en var nærri 400 á hádegi í gær.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofunni í dag.

„Rennsli í byggð fer nú einnig minnkandi og mun draga úr vatnsmagni í Skaftá næstu daga. Á hádegi í dag mældust sama rennsli um 180 m³/s í Eldvatni við Ása.

Vatn flæðir út á Eldhraun þar og þaðan skilar vatnið sér í Grenlæk og Tungulæk og stendur vatnshæð þar hátt. Rennsli í Grenlæk og Tungulæk minnkar um helming á um það bil 7-10 dögum eftir hlaup þar til það nær jafnvægi.

Rúmmál hlaupsins nú er metið um 500 gígalítrar, þar af runnu um 435 gígalítrar frá jökli en grunnrennsli árinnar meðan á hlaupinu stóð er metið 65 gígalítrar. Rúmmál hlaupsins 2015 hefur verið metið um 425 gígalítrar, þar af um 365 gígalítrar frá jökli. Skaftárhlaupið nú er því stærra að rúmmáli til en hlaupið 2015 og eitthvert stærsta jökulhlaup í Skaftá síðan mælingar hófust, en sambærileg hlaup að rúmmáli féllu 1970, 1982, 1984 og 1995 auk hlaupsins 2015,“ segir í tilkynningunni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×