Fundurinn var haldinn að beiðni íbúa í dalnum sem ítrekað hafa biðlað til yfirvalda um bætt umferðaröryggi á Þingvallavegi. Hefur mikið verið fjallað um málið síðustu daga vegna banaslyss sem varð á veginum á laugardag vegna framúraksturs. Í gær var svo greint frá því að Vegagerðin hygðist banna framúrakstur á vegkaflanum.
Sjá einnig: Nýtt framúrakstursbann Vegagerðarinnar á Þingvallavegi „fagnaðarefni“
Sú var einmitt fyrsta krafa íbúa í Mosfellsdal sem lögð var fram á fundinum. Krafan lýtur að því að málaðar verði heilar línur á veginn og framúrakstur þannig bannaður. Í ályktun kemur fram að Vegagerðin hafi samþykkt að framkvæma það eins fljótt og auðið er.
„Ef það bregst eru íbúar tilbúnir með málningarrúlluna og munu ganga í verkið sjálfir,“ segir enn fremur í ályktun.

Einnig voru settar fram kröfur um að hraðamyndavélar yrðu settar strax upp og tók bæjarstjóri Mosfellsbæjar vel í það, að því er fram kemur í ályktun, en þær þyrftu þá að vera settar upp í samstarfi við lögreglu, Vegagerðina og umferðaröryggisráð.
Þá var rætt að setja upp stöðvunarskyldu við alla afleggjara á Þingvallavegi auk þess sem háværar raddir lögðu til að hámarkshraði yrði lækkaður niður í 50 km/klst. Að auki liggur fyrir krafa íbúasamtakanna um nýjan veg til Þingvalla sem lagður yrði frá Nesjavallavegi að Kjósarskarði.