Önnur vindmylla fyrirtækisins Biokraft í Þykkvabæ er byrjuð að framleiða rafmagn á ný eftir að hafa verið biluð í tvo mánuði. Eigandi fyrirtækisins kom vindmyllunni sjálfur í gagnið með varahlutum af Ebay. Hann setur jafnframt spurningamerki við gagnrýni íbúa í nágrenninu sem segja stafa hljóðmengun af vindmyllunum.
Greint var frá því í kvöldfréttum Stöðvar 2 á miðvikudag að framtíð raforkuframleiðslu í Þykkvabæ væri í uppnámi. Tvær vindmyllur voru gangsettar í júlí árið 2014 en önnur eyðilagðist í bruna í fyrra. Hin bilaði svo í maí á þessu ári og hefur því engin raforkuframleiðsla átt sér stað í Þykkvabæ undanfarna tvo mánuði. Nú hefur hins vegar orðið breyting þar á.
„Hún er að framleiða rafmagn á fullu. Það eru mikil gleðitíðindi á þessum fallega degi,“ segir Steingrímur Erlingsson, eigandi Biokraft, í samtali við Vísi.
Verður að hugsa „kreatívt“
Steingrímur kom vindmyllunni aftur í gagnið með svokölluðum analog-stýringum sem hann keypti af Ebay og smíðaði svo úr þeim parta í vindmylluna. Þá bendir Steingrímur á að analog-tæknin sé afar gömul, hún komi fyrir tíma tölvunnar, enda vindmyllurnar komnar til ára sinna.
„Þegar þú ert að reyna að halda einhverju í gangi sem ekkert er lengur framleitt í verðurðu að hugsa „kreatívt“,“ segir Steingrímur.

Eins og að sparka í liggjandi mann að tala um hljóðvist
Sautján ár eru síðan framleiðslu á vindmyllum Biokraft var hætt. Fyrirtækið hefur þegar keypt nýjar vindmyllur en getur ekki sett þær upp vegna andstöðu íbúa og sveitarstjórnar sveitarfélagsins Rangárþings ytra.
Sjá einnig: Fær ekki að reisa tvær nýjar og hærri vindmyllur í Þykkvabæ
Í vikunni var rætt við nokkra af þeim sem háværastir hafa verið í gagnrýni sinni. Aðspurður setur Steingrímur spurningarmerki við að vindmyllurnar valdi hljóðmengun eins og Gyða Árný Helgadóttir, sem á og rekur Hótel Vos í Þykkvabæ, hélt fram.
„Í 100 metra fjarlægð frá vindmyllunum heyrast 42 desíbel og starfsemi þessarar ágætu konu sem talaði er í rúmum kílómeters fjarlægð frá okkur. Hún heyrir ekki í þeim, það er svolítið svona eins og að sparka í liggjandi mann að tala um hljóðvist, þetta er bara ekki satt,“ segir Steingrímur.
„Það er fullt af fólki þarna líka sem vill þetta. Þetta skapar orku og tekjur til sveitarfélagsins. Það má ekki gleyma því heldur að þetta er með öllum leyfum og réttindum til að keyra í tuttugu ár.“
Framleiða rafmagn eins og herforingjar
Aðspurður segist Steingrímur óviss um framhald raforkuframleiðslu Biokraft í Þykkvabæ. Hann hafi þó ekki trú á öðru en að vindmyllan standi sig í nokkurn tíma með glænýjum pörtum af Ebay.
„Þetta þýðir bara að vindmyllan er að framleiða rafmagn inn á Landsnet. Ég hef ekki nokkra trú á öðru en að hún gangi núna. Hún er á fullum snúning. Svo er spáð vindi á morgun þannig að við framleiðum rafmagn eins og herforingjar.“