Fótbolti

Þarf Higuain að víkja fyrir Ronaldo?

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Gonzalo Higuaín hefur skorað 55 mörk í 105 leikjum fyrir Juve síðan hann kom frá Napoli 2016
Gonzalo Higuaín hefur skorað 55 mörk í 105 leikjum fyrir Juve síðan hann kom frá Napoli 2016 vísir/getty
Það ætti ekki að hafa farið framhjá nokkrum manni að besti knattspyrnumaður heims árið 2017, Cristiano Ronaldo, er genginn til liðs við ítalska meistaraliðið Juventus.

Um er að ræða ein stærstu félagaskipti knattspyrnusögunnar en Juventus borgar rúmlega 100 milljónir punda fyrir portúgölsku ofurstjörnuna.

Ítalskir fjölmiðlar telja næsta víst að einhverjir sem áður voru lykilmenn hjá Juve þurfi nú að víkja í kjölfar komu Ronaldo til félagsins.

Argentínski sóknarmaðurinn Gonzalo Higuain þykir líklegur til að vera einn þeirra enda er hann einn af launahæstu leikmönnum félagsins. Higuain skoraði 23 mörk í 50 leikjum á síðustu leiktíð en talið er að Chelsea hafi áhuga á þessum þrítuga framherja.

Fabio Capello, fyrrum stjóri Real Madrid, Juventus, enska landsliðsins og fleiri stórliða, er nokkuð viss um að Higuain muni ganga í raðir Chelsea í sumar.

„Ég held að Higuain muni yfirgefa Juventus og ég held að hann sé á leiðinni til Chelsea, þar sem Maurizio Sarri mun taka honum fagnandi,“ segir Capello en rétt er að geta þess að umræddur Sarri er ekki tekinn við stjórnartaumunum hjá Chelsea þó það muni að öllum líkindum gerast á næstu dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×