„Ég verð að hrósa þjálfaranum sem sá afar vel um drengina,“ sagði Tongchai Lertvirairatanapong, læknir á vegum heilbrigðisráðuneytis Taílands. Hann tók á móti drengjunum á spítalanum í Chiang Rai, þangað sem þeir voru fluttir eftir að þeim var bjargað úr hellinum.
Þjálfarinn var síðastur út úr hellinum en hann er meðal annars sagður hafa gefið drengjunum sinn hlut af þeim matarbirgðum sem þeir tóku með í hellinn, kennt þeim að hugleiða og sýnt þeim hvernig best væri að spara sem mesta orku á meðan beðið var eftir björgun.
Drekka vökva sem líkist mjólk
Lertvirairatanapong segir að drengirnir hafi ekki borðað neinn mat í níu daga áður en þeir fundust og að þeir hafi drukkið gruggugt vatn úr hellinum, sem hélt þeim á lífi. Að meðaltali léttist hver og einn þeirra um tvö kíló á meðan dvölinni í hellinum stóð. Drengirnir hafa fengið brauð með súkkulaði en til þess að næra þá sem mest munu þeir fyrstu dagana helst fá næringarríkan og próteinríkan vökva sem líkist mjólk.Drengirnir virðast flestir vera við ágæta heilsu og segir læknirinn að sumir þeirra glími aðeins við smávægilegar sýkingar, kvef eða flensu auk þess sem að sálfræðingar hafi rætt við drengina.
Hinir fjóru sem fyrst var bjargað hafa fengið að ræða við foreldra sína í gegnum gler og búist er við því að seinni hóparnir tveir fái að gera slíkt hið sama í dag eða á morgun. Meðal annars er verið að ganga úr skugga að drengirnir og þjálfarinn þjáist ekki af hellaveiki, líkt og Vísir fjallaði um í gær.