Innlent

Unglingur á tvöföldum hámarkshraða

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ökumaðurinn var stöðvaður í grennd við Smáralind.
Ökumaðurinn var stöðvaður í grennd við Smáralind. Vísir/GVA
Ungur ökumaður var stöðvaður á Reykjanesbraut skömmu fyrir klukkan 1 í nótt eftir að hafa verið mældur á 160 km/klst. Á kaflanum þar sem hann hafði verið að aka, sem sagður er vera skammt frá Smáralind, er hámarkshraðinn 80 km/klst og því ljóst að hann ók um tvöfalt hraðar en leyfilegt er.

Í skeyti lögreglunnar segir að ökumaðurinn sé aðeins 17 ára gamall og að meðan honum í bíl hafi verið annar 17 ára einstaklingur. Ökumaðurinnhafi þar að auki verið sviptur hinum nýfengnu ökuréttindum sínum til bráðabirgða. Að sögn lögreglunnar var málið unnið með aðkomu foreldra, enda um ólögráða einstaklinga að ræða, og var það jafnframt tilkynnt til Barnaverndar.

Þetta var þó ekki eina umferðarlagabrotið sem kom inn á borð lögreglunnar í nótt. Annar ökumaður neitaði að verða við stöðvunarboðunum lögreglunnar og jók þess í stað hraðann. Ákvörðunin leiddi til eftirfarar um Grafarvog sem lauk í Fannafold á sjöunda tímanum. Ökumaðurinn er grunaður um margvísleg umferðarlagabrot; til að mynda að hafa ekið undir áhrifum vímuefna, að hafa ekki farið að fyrirmælum lögreglu, fyrir að hafa ekið og hratt sem og fyrir að hafa ekki endurnýjað ökuskírteini sitt. Hann er jafnframt talinn hafa gerst sekur um brot á vopnalögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×