Moyes er atvinnulaus eftir að hann lét af störfum hjá West Ham undir lok leiktíðar í ensku úrvalsdeildinni en hann er hvað þekktastur fyrir áratug sinn hjá Everton og að vera maðurinn sem tók við af Sir Alex Ferguson hjá Manchester United.
Skotinn er með mikla tengingu við Ísland en faðir hans, David Moyes eldri, kom hingað margsinnis á árum áður og stuðlaði að miklum og góðum samskiptum íslenska og skoska fótboltans. Hann var sæmdur gullmerki KSÍ árið 1978.
David Moyes yngri kom oft með föður sínum til Vestmannaeyja og æfði með Tý en spilaði þó aldrei leik eins og hann viðurkenndi í viðtali við Vísi fyrir þremur árum.
„Það hefur ekki verið haft samband við okkur,“ segir Kenny Moyes, bróðir og umboðsmaður Davids Moyes, í samtali við Vísi í morgunsárið. „Ég er ekki viss um að þetta sé starfið fyrir hann þessa stundina.“
Kenny segir David Moyes vilja komast aftur í leikinn en þá helst með félagsliði og það á Bretlandseyjum.
„Hann hefur hafnað nokkrum tilboðum nú þegar. Það er auðvitað leiðinlegt að bíða bara eftir því að einhver góður maður missi starfið sitt en svona er skrímslið sem er fótboltinn,“ segir Kenny, en myndi hann eða bróðir hans ræða við KSÍ ef símtal myndi berast?
„Ekki spurning. Við erum auðvitað með mikla og sterka tengingu við Ísland þannig að sjálfsögðu myndum við taka spjallið,“ segir Kenny Moyes.