Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu var kallað út í gærkvöldi eftir að eldur kom upp í íbúð við Lautarsmára í Kópavogi. Þegar slökkviliðsmenn mættu á vettvang á níunda tímanum var töluverður eldur í íbúð á fyrstu hæð og voru allir íbúar hússins komnir út.
Að sögn lögreglu kom eldurinn upp þegar húsráðandi hafði verið að djúpsteikja sér mat. Íbúðin er sögð mikið skemmd eftir brunann en svo virðist sem allir hafi komist heilir á húfi út úr húsinu.
Slökkviliðið slökkti jafnframt eld sem kom upp í bifreið við Dugguvog á tólfta tímanum. Ekki fylgir sögunni hvernig eldurinn kviknaði en ekki tók langan tíma að ráða niðurlögum hans. Bíllinn var svo fjarlægður eftir að slökkvistarfinu lauk.
Miklar skemmdir eftir djúpsteikingu
Stefán Ó. Jónsson skrifar
