Scheff á langan feril að baki þar sem hann hefur spilað undir hjá goðsögnum á borð við Elvis Presley, Bob Dylan, Elvis Costello og fleirum. Á tónleikunum mun Scheff einnig ræða við áhorfendur og segja þeim frá samstarfinu með Presley á sjöunda og áttunda áratugnum.
Scheff gekk til liðs við sveit Presley árið 1969 og spilaði undir á rúmlega sjö hundruð tónleikum hans á árunum 1969 til 1977, meðal annars á síðustu tónleikum Presley í Indianapolis sumarið 1977. Þá spilaði hann undir á fjölda platna.
Ferill Scheff er merkilegur í meira lagi því auk Presley, Costello og Dylan hefur hann spilað með hverri stórstjörnunni á fætur annarri, meðal annars John Denver, The Monkees, The Doors, The Everly Brothers, Sammy Davis Jr, Nancy Sinatra og Neil Diamond.

Á Facebook-síðu tónleikanna segir að munir frá tónlistarmönnum sem spiluðu með Presley verði boðnir upp og mun allur ágóði renna til Krabbameinsfélagsins.