Veðrið hefur þó ekki verið alslæmt fyrir þá sem þjást af frjókornaofnæmi, þar sem heildarfjöldi frjókorna var mjög lítill á höfuðborgarsvæðinu í júní. Frjó mældust alla daga mánaðarins en í litlu magni.
Á Akureyri, þar sem sólskinsstundir voru 15 fleiri en á meðal ári og meðalhiti hærri en síðustu ár mældist heildarfjöldi frjókorna einnig yfir meðallagi.
Ellý Renée Guðjohnsen, líffræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, segir að rigningasumarið í Reykjavík fari heldur betur vel í ofnæmispésana.

Í hugleiðingum veðurfræðings í morgun er gert ráð fyrir að það hlýni í veðri á vestanverðu landinu í næstu viku og Ellý segir að þá megi gera ráð fyrir að frjókornin fari á kreik.
„Ég veit ekki alveg hvernig spáin er út júlí en um leið og veðrið batnar þá verða grasfrjókorn í loftinu.“
Illa hefur gengið að slá gras vegna vætu víða á landinu og Ellý segir að búast megi við töluverðu magni frjókorna í loftinu um leið og það styttir upp og hlýnar, en grasafrjó mælist oftast mest í júlí og ágúst. Það er því betra að slá blettinn um leið og færi gefst.
Á vef Astma- og ofnæmisfélags Íslands eru gefin góð ráð gegn frjókornaofnæmi:
- Hægt er að takmarka gróður í nánasta umhverfi viðkvæmra einstaklinga þó að fæstir vilji hafa malbikaðan garð.
- Þurrkið ekki þvott á snúru utandyra þegar mikið er af frjókornum í loftinu því að þau setjast í föt og lín.
- Látið ekki barnavagna standa utandyra og safna í sig frjókornum.
- Reynið að útiloka plöntur innandyra ef þær valda ofnæmi.
- Hafir þú ofnæmi fyrir grasi skalt þú reyna að fá einhvern annan til að slá blettinn.
- Farðu alltaf eftir ráðleggingum læknis um notkun ofnæmislyfja, hafir þú fengið slík lyf.