Tjörvi Einarsson, lögreglufulltrúi hjá ríkislögreglustjóra er annar tveggja íslenskra lögregulmanna í stjórnstöðinni í Moskvu. Þar eru fulltrúar allra þjóðanna sem keppa á HM, skiptast á upplýsingum og vinna saman að því að tryggja öryggi fólks í Rússlandi.

Blaðamaður ræddi við Tjörva á sunnudaginn og sagði hann þá ekkert meiriháttar hafa komið upp, ef frá væri talin handtakan.
„Auðvitað hafa komið upp mál sem snúa að miðasvikum og þjófnaði,“ segir Tjörvi. Engin tilfelli um Íslendinga hafi þó borist á hans borð. Tilkynningar um þjófnað til rússnesku lögreglunnar berist þó ekki endilega á hans borð þótt um Íslendinga hafi verið að ræða.

„Það er ekki eins mikil samsöfnun af Íslendingum í Rússlandi eins og í Frakklandi,“ segir hann. Þar hafi fólk dvalið lengur, leigt sér hús og verið með fjölskylduna í sumarfríi.
Hann segir allt hafa gengið ótrúlega smurt fyrir sig. Í stjórnstöðinni situr íslenska lögreglufólkið einmitt við hliðina á því argentínska. Þau skiptust á upplýsingum fyrir leikinn á laugardaginn.

Á meðan á leiknum stóð voru miklar tilfinningar, líka hjá lögreglufólki.
„Ég varð sjálfum mér aftur að athlægi á þessu móti með viðbrögðum við leik í stjórnstöðinni, hoppandi og gargandi,“ segir Tjörvi léttur. Flestir séu spenntir fyrir sínu landi og það sjáist vel að fólki sé ekki sama þegar þjóðin sín spili.
„En auðvitað er allt í bróðerni og vináttu.“