Glódís sýndi stjörnutakta í leik kvennalandsliðsins á móti Slóveníu nýverið og skoraði tvö mörk. Hún hefur haft nóg að gera í Svíþjóð og lauk nýverið BA-gráðu í sálfræði við Háskólann á Akureyri.
Glódís tók sér tíma til þess að koma sér fyrir úti í Svíþjóð áður en hún hóf háskólanám í sálfræði. Hún stundaði námið af kappi í þrjú ár. „Það hefur gengið bara mjög vel. Ég er reyndar ansi heppin að eiga almennt ekki í miklum erfiðleikum með nám svo það hefur létt aðeins á mér,“ segir Glódís sem lumar á góðum ráðum fyrir þá sem hafa mikið fyrir stafni en vilja líka mennta sig.
„Ég held að skipulag sé lykillinn að velgengni í flestu sem maður vill gera. Ég veit um marga sem eru að vinna samhliða námi og eiga jafnvel börn líka sem er töluvert meira en það sem ég geri á daginn þannig þetta er ákveðið púsluspil en ef viljinn er fyrir hendi þá er vissulega allt hægt,“ segir Glódís.

Glódís stefnir á frekara nám
„Ég er að hugsa um að skrá mig í einkaþjálfaranám í haust en annars hef ég ekkert ákveðið. Mér finnst sálfræðin líka mjög áhugaverð og gæti farið í mastersnám í einhverju tengdu henni á næstu árum,“ nefnir hún og segir enda sálfræðina gagnast vel í boltanum.„Já, alveg að vissu leyti, ég skrifaði til að mynda lokaritgerðina mína um hugræna færni íslenskra knattspyrnukvenna sem var mjög áhugavert og las ég mikið um tengsl hugrænna þátta og árangurs í íþróttum í þeirri vinnu sem auðvitað tengist beint inn á mitt daglega líf.“

„Við erum að fara að spila gríðarlega mikilvægan leik á móti Þýskalandi 1. september og svo á móti Tékklandi nokkrum dögum seinna sem bæði eru mjög góð lið.“
Styrkleika liðsins segir hún felast í hugarfarinu. „Við erum Íslendingar og höfum bilaða trú á okkur sjálfum og því sem við getum gert og ég held að það sé aðalstyrkleiki okkar. Fyrir utan það erum við taktískt góðar, spilum góðan varnarleik og erum sterkar í föstum leikatriðum.“
Og að sjálfsögðu fylgist Glódís með gengi félaga sinna í karlalandsliðinu. Styrkleikar þeirra séu svipaðir þeirra í kvennalandsliðinu.
„Þeir eru bara gríðarlega flottir og búnir að ná frábærum árangri með því að koma sér á HM en við sem Íslendingar erum ekki sátt þar heldur viljum við alltaf meira. Held að styrkleikar þeirra séu mjög svipaðir okkar styrkleikum í kvennalandsliðinu. Þeir spila góðan varnarleik, eru grjótharðir og erfitt að brjóta þá niður og svo eru þeir sterkir í skyndisóknum og föstum leikatriðum. Veikleikar gætu verið meiðsli mikilvægara leikmanna en ég hef reyndar fulla trú á því að Frikki og allt teymið sem þeir eru með hjálpi þeim að vera 100% þegar þess þarf!“