Gylfi Þór Sigurðsson var brattur á blaðamannafundi landsliðsins í morgun enda kominn í fínt stand og verður í byrjunarliðinu gegn Gana á morgun.
„Það hefur gengið vel og mikil vinna hjá mér að komast í stand. Ég var á æfingum, sundi og hjá sjúkraþjálfurum,“ segir Gylfi Þór sem æfði í marga tíma á dag og spilaði í 30 mínútur gegn Noregi.
„Mér leið vel eftir leikinn. Ég var ferskur og hnéð var fínt. Það er langt síðan ég spilaði og því mikilvægt að ná eins mörgum mínútum og ég get fyrir mótið.“
Gylfi viðurkennir að það væri gott að ná 90 mínútum gegn Gana en það væri líklega ekki mjög skynsamlegt.
„Það væri fínt að taka í kringum 60-70 mínútur,“ segir Gylfi sem er heill en finnur aðeins fyrir meiðslunum. „Ég er ekkert verri eftir leik eða æfingar. Er betri frá degi til dags. Ég finn samt aðeins fyrir þessu er ég sparka í boltann. Mér skilst að það sé eðlilegt.“
Gylfi: Búinn að leggja á mig mikla vinnu

Tengdar fréttir

Heimir: Líklega ekki skynsamlegt að láta Gylfa spila í 90 mínútur
Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari gekk vasklega til verks á blaðmannafundi sínum í morgun. Byrjaði að útskýra allt um meiðslastöðuna til þess að koma því frá strax.