Fram yfir helgi er útlit fyrir mildar vestlægar áttir og frekar úrkomulítið veður um landið vestanvert, en þurrt og bjart með köflum fyrir austan. Á föstudag og laugardag bætir í vindinn, en á sjómannadaginn lægir aftur ef spár ganga eftir.
Þá má jafnvel gera ráð fyrir því að það muni heldur hlýna í veðri þegar fram er komið í næstu viku. Þá gæti jafnvel verið nokkuð þurrt á landinu, sem Reykvíkingar munu eflaust taka fagnandi eftir vætusamasta maímánuð frá því að mælingar hófust.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á fimmtudag:
Vestlæg átt 3-10 m/s, skýjað V-lands og sums staðar súld við ströndina, en skýjað með köflum annars staðar. Hiti 8 til 18 stig, hlýjast SA-til.
Á föstudag:
Vestlæg átt, 5-15 m/s, hvassast NV-lands og yfirleitt skýjað, en bjart á köflum um landið austanvert. Hiti breytist lítið.
Á laugardag:
Suðvestlæg átt, sums staðar allhvöss eða hvöss og dálítil væta V-lands, en bjart með köflum A-til. Hiti 8 til 18 stig, hlýjast á austanverðu landinu.
Á sunnudag (sjómannadagurinn):
Vestlæg átt 3-8 m/s, skýjað og úrkomulítið um landið V-vert, en víða bjart A-til. Hiti svipaður.
Á mánudag og þriðjudag:
Hæg breytileg átt, þurrt og hlýnar heldur í veðri.