Þau hafa verið að gera vagninn upp en hins vegar er komin upp sú leiðinlega staða að vagninn er ekki hægt að laga og það þarf að reisa nýtt húsnæði á reitnum. Verður íbúum hverfisins gert viðvart um þetta í tilkynningu þar sem kemur meðal annars fram: „Með mikilli sorg í hjarta hefur sú ákvörðun verið tekin að rífa gamla Hagavagninn. Þegar við hófum breytingar á húsnæðinu kom sú staðreynd í ljós að hann er gjörónýtur og ekki er hægt að bjarga honum. Við erum bjartsýn á framtíðina og stefnum á að opna Hagavagninn í júlí. Við höldum í nafnið en kveðjum gamla kofann.“
Þegar blaðamaður nær í Gauta er hann á leiðinni út úr bænum á ferðalag sitt um landið, þar sem fyrsta stopp var á Hvolsvelli.
„Það er rosa stutt í að við opnum vagninn og við komin langt í ferlinu, við erum svona í lokasmakkinu núna. Ég er búinn að biðja þau Rakel og Óla, sem eru með mér í þessu, að senda mér hamborgara út á land. Ég fæ reyndar ekki einn sveittan í bréfi – en ég fæ hráefnin sem ég get svo eldað sjálfur og leyft strákunum að smakka.“
Gauti segir það þó í raun og veru ekki vera neitt sérstaklega mikinn skell fyrir ferlið að þurfa að byggja nýjan vagn.

Ætlunin sé að halda í svipað útlit og var á gamla góða vagninum þó svo að hann verði ekki byggður í nákvæmlega sömu mynd.
Sjá einnig: Fannst vanta „basic burger“ í hverfið
„Við ætlum að hafa þetta í stíl við götuna, en hún er í mikilli uppbyggingu um þessar mundir. Það er kominn skemmtilegur svipur á hana – við erum með Melabúðina, Kaffi Vest og svo nýjasta viðbótin sem er Brauð & Co. Ég get ekki farið neitt nánar út í það en við, allir þessir fjórir staðir, ætlum að halda smá viðburð saman sem verður tilkynntur betur síðar. Markmiðið er auðvitað bara að gera geggjaða hamborga sem fólk þráir og byggja upp hverfið.“
Svona fyrst Gauti er í símanum getur blaðamaður ekki stillt sig um að spyrja hvernig tónleikaferðalagið fari af stað.
„Íslandstúrinn er að hefjast núna bara á meðan við tölum saman. Það tók aðeins lengri tíma en við bjuggumst við að pakka í bílana – við erum náttúrulega átta menn sem verðum á veginum í næstum tvær vikur og það er bara ákveðið mikið af rusli sem því fylgir. Það er mikil spenna og massívt prógramm fram undan – við erum að fara spila sextán sinnum á næstu þrettán dögum og Keli er strax orðinn óþolandi – við erum ekki komnir út úr bænum og hann er strax búinn að segja átján aulabrandara.“