Skoðun

Gerum breytingar í Kópavogi

Geir Þorsteinsson skrifar
Í komandi kosningum til bæjarstjórnar geta íbúar gert breytingar á skipan bæjarstjórnar með því að styðja framboð Miðflokksins. Breytingar eru nauðsynlegar til að leiða fram nýjar hugmyndir og framtíðarsýn sem skipar Kópavogsbæ í fremstu röð bæjarfélaga á Íslandi.

Miðflokkurinn ætlar að lækka álögur á íbúa, þannig að skattar í Kópavogi verði þeir lægstu á höfuðborgarsvæðinu. Við ætlum að lækka útsvarið í 13,5%, fasteignagjöld af íbúðarhúsnæði um 20% og atvinnuhúsnæði um 10%. Við ætlum að lækka enn frekar fasteignagjöld á tekjulága örorku- og ellilífeyrisþega eins og heimild er fyrir. Þetta mun leiða til þess að íbúar halda eftir meiri hluta sinna tekna. Þetta er hægt þar sem skatttekjur bæjarins hafa aukist mikið vegna hærri tekna bæjarbúa og hærra fasteignamats. Nú er rétti tíminn til þess að leyfa bæjarbúum að njóta erfiðis síns og létta á þeim álögur.

Skattar eiga að vera hóflegir og í takt við þörf og þróun hagkerfisins. Bæjarfélagið á að reka með hagkvæmni og skynsemi í fyrirrúmi. Ekki mun verða veruleg breyting á skatttekjum bæjarins í krónum talið á milli ára við þessar breytingar. Kakan hefur stækkað og þarf bæjarsjóður minni sneið af henni til að afla nægra tekna til reksturs. Það er stefna Miðflokksins að reka bæjarsjóð með hagnaði en ekki hagnaði upp á marga milljarða króna - krónur bæjarbúar sem betur eiga heima í vösum þeirra.

Miðflokkurinn ætlar að forgangsraða í þágu fjölskyldna með ung börn, gera átak í málefnum leikskóla og dagforeldra til að börn komist í dagvistun við 1 árs aldur, niðurgreiða að fullu næringarríkar skólamáltíðir 6-12 ára barna og hækka frístundatyrk upp í 75 þús. kr. Miðflokkurinn mun reka ábyrga fjármálastefnu og gerir sér grein fyrir að kostnaðurinn við þessar aðgerðir verður hátt í milljarður króna á ári en bæjarfélagið hefur borð fyrir báru og getur samhliða þessu greitt niður langtímaskuldir þrátt fyrir minni álögur á bæjarbúa.

Höfundur skipar 1. sæti á framboðslista Miðflokksins.




Skoðun

Sjá meira


×