Botninum náð hvað kosningaþátttöku varðar
Fyrir kosningar höfðu ýmsir áhyggjur af kosningaþátttöku, að hún yrði dræmari en nokkru sinni. Svörtustu spár í þeim efnum gengu ekki eftir. Í Reykjavík var kjörsóknin 67 prósent eða rúmlega fjórum prósentustigum meiri en í kosningunum fyrir fjórum árum. Kjörsókn var víða á bilinu 60-75 prósent en hún var langminnst í Reykjanesbæ eða 57 prósent.

Grétar Þór segir þetta til marks um botninum nú náð.
„Við vorum ekki ánægð með 66,5 fyrir fjórum árum. Þetta er nokkurn veginn það sama. Nema, við vitum þá að botninum var náð þá. Án þess að þetta sé sérstakt ánægjuefni. Þarna vegur þyngst að kosningaþátttaka jókst í Reykjavík, miðað við fyrir fjórum árum og það vigtar mjög þungt í stóra samhenginu. Svo náttúrlega voru tilvik þar sem kosningaþátttaka var mjög slæm,“ segir Grétar Þór og bendir á að Reykjanesbæ í því samhengi. Það komi á óvart vegna þess að þar hefur mikið gengið á.
Ekkert endilega svo að fleiri framboð dragi að fleiri kjósendur
Grétar Þór segir að það sé ekkert endilega svo að fleiri flokkar og fleiri í framboði, dragi að fleiri kjósendur. „Það eru ekki endilega bein tengsl þar á milli en svo getur verið við tilteknar aðstæður. Og því veltir maður því fyrir sér hvort sú er raunin í Reykjavík?“
Það sem menn horfa til með fleiri framboðum er að fleiri séu í baráttunni og dragi þannig fleiri kjósendur að. En, þá er til þess að líta að nokkur framboð í Reykjavík fengu ekki mikið fleiri til að kjósa sig en sem nemur frambjóðendunum sjálfum og þeirra nánustu ættingjum.
„Já, botninum náð. Greinilega. En, þetta er kannski ekki staður sem okkur finnst æskilegt að vera á. 2014 var mikið áfall þegar þátttakan hélt áfram að hrynja og ekkert hefur gerst nema það að við erum stödd þar sem við vorum þá.“
Óvæntur blússandi byr í segl Eyþórs Arnalds
Annað sem horfa má til, þegar það er skoðað sem hæst ber er fylgissveifla til Sjálfstæðisflokksins í borginni. Á síðustu metrunum fékk Eyþór Arnalds og hans fólk verulegan byr í seglin; nokkuð sem engin teikn voru á lofti um nema í því sem sýndi sig í skoðanakönnun Gallup sem birtist rétt fyrir kosningar.

„Ekkert sem blasir við. Þess vegna hallast ég frekar að því að þetta hafi verið meira eitthvað undirliggjandi og óákveðnir hafi farið í þessa átt að lokum. Ég sé ekki að það hafi verið eitthvað „móment“ síðustu vikuna. Auðvitað auglýstu Sjálfstæðismenn hressilega og mikið síðustu vikuna. Það hefur kannski hjálpað eitthvað til. En, dýpri skýringar án þess að hafa nokkur einustu gögn, eru ekki nærtækar. Erfitt að átta sig á þessu. Það er kannski hægt að sjá þetta seinna,“ segir Grétar Þór.
Einar Þorsteinsson reyndist Sósíalistum haukur í horni
Talandi um móment. Þó leiða megi að því líkur að kosningabaráttan hafi lengstum verið hreinlega leiðinleg, þá var Vísir ekki fyrr búinn að birta samantekt þess efnis en heldur betur tók að hitna í kolunum. Einar Þorsteinsson fréttamaður RÚV sá um fjörið og bauð uppá það í leiðtogaumræðum á Ríkisútvarpinu. Hann gekk á oddvita Sósíalistaflokksins, Sönnu Magdalenu, og spurði hana um bakgrunn framkvæmdastjóra flokksins, svo hressilega að ýmsum ofbauð.
Líkast til er þetta „móment“ kosningabaráttunnar, hliðstætt því er Inga Sæland felldi tár í kosningabaráttu fyrir síðustu Alþingiskosningar. Kári Stefánsson forstjóri ÍE hefur skrifað opið bréf til Einars þar sem hann krefst þess að Einar segi sig frá frekari störfum við fréttastofuna.
Sanna fékk tækifæri til að sýna hvað í henni býr
En, þetta er ekki einhlýtt og fjölmargir telja að umdeild framganga Einars hafi hreinlega orðið til að auka fylgi Sósíalistaflokksins. Þeirra á meðal er Sanna sjálf sem sagði í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins:
„Já, ég held að Einar [Þorsteinsson, fréttamaður] hafi hjálpað okkur slatta mikið með þessari spurningu, það hefur mikið verið talað um þetta og mikið búið að deila þessu á Facebook og svona. Þannig að ég er búin að fá mikið hrós þar sem fólk segir bara „vá hvað þú rústaðir þessu.“ Þannig að það er mjög gaman að heyra það.“

„Að þetta hafi verið einhvers konar Ingu Sæland-móment? Það er alveg hugsanlegt. Ekki er hægt að útiloka það. Hún fær „móment“ sem allir taka eftir. Fólk beið með öndina í hálsinum, hvað segir hún og Sanna náði að nýta sér það vel. Henni tókst vel upp með svar sitt og fékk tækifæri til að sýna hvað hún getur.“
Ríkisstjórnarþátttaka reyndist Vg erfiður ljár í þúfu
Að endingu er vert að horfa til stöðu Vg. Rassskelling, segir Líf Magneudóttir, leiðtogi flokksins í borginni, í samtali við Vísi nú í morgun. En vill þó tala um vinstrið í víðri merkingu. Þó ýmsir liðsmenn Vg vilji helst horfa í aðrar áttir í leit að skýringum,
þá virðist nærtækasta skýringin vera hin umdeilda þátttaka Vg í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki?
„Við fyrstu sýn virðist svo vera,“ segir Grétar Þór. „Að slæm niðurstaða í Kópavogi og Reykjavík sé vegna ríkisstjórnarsamstarfsins. En á móti kemur að þar bauð Sósíalistaflokkurinn fram þannig að það eru kannski fleiri en ein skýring.

Sósíalistaflokkurinn gæti verið breyta í slöku fylgi Vg
Grétar Þór segir að í síðustu sveitarstjórnarkosningum hafi Vg verið með níu kjörna menn af sínum listum en átta nú. En, það bregði þó ekki réttri mynd af því hversu mjög fylgi flokksins skrapp saman.
„Þetta eru einhvers konar skilaboð en ég held að Sósíalistaflokkurinn hafi klárlega verið breyta í Reykjavík.“
En, þá má til þess líta að áherslur Vg hafa verið þær að vilja berjast fyrir láglaunastéttir, umhverfismál og svo kvenréttindi. Í borginni bauð fram sérlegur Kvennalisti en hann hafði ekki erindi sem erfiði og virtist í því ekki vera að kroppa mikið af fylgi Vg, ekki í þeim efnum. Grétar Þór segir það rétt, að erfitt sé að setja puttann á einhlítar skýringar í þessum efnum; nema erfitt sé að horfa hjá því að stjórnarsamstarfið hafi reynst Vg óþægur ljár í þúfu.