Útboð á hlutum í húsaleigufyrirtækinu Heimavöllum hefst klukkan 10 í dag og lýkur klukkan 16 á morgun. Í útboðinu verða boðnir til sölu 750.000.000 nýir hlutir í Heimavöllum, að því er fram kemur í frétt á vef Landsbankans.
Markmiðið með útboðinu er að fjölga hluthöfum í Heimavöllum þannig að félagið uppfylli skilyrði Aðalmarkaðar Kauphallar Íslands varðandi dreifingu hlutafjár og fjölda hluthafa.
Fjárfestar geta valið um þrjár tilboðsbækur í útboðinu sem eru m.a. ólíkar hvað varðar stærð áskrifta, verðlagningu og úthlutunarreglur. Upplýsingar um tilboðsbækur má nálgast á vef Landsbankans.
Sjá einnig: Tæplega þriggja milljarða hagnaður af rekstri Heimavalla
Söluandvirði útboðsins, miðað við að allir hlutir í útboðinu verði seldir á lágmarksverði hverrar tilboðsbókar, er á bilinu 1.024.650.000 - 1.229.580.000 krónur eftir því hvort heimild til að fjölga seldum hlutum verður nýtt eða ekki.
Útboðið er markaðssett á Íslandi og er þátttaka í því heimil öllum þeim einstaklingum og lögaðilum sem hafa bæði íslenska kennitölu og eru fjárráða.
Heimavellir er stærsta leigufélag landsins og var með tæplega 2.000 leiguíbúðir í rekstri í lok síðasta árs. Heimavellir eru enn fremur fyrsta félagið sem skráð er á Aðallista Kauphallar eftir fjármálahrun sem hyggst afla fjármagns með skráningu á hlutabréfamarkað.
Útboð í Heimavöllum hefst í dag

Tengdar fréttir

Meta Heimavelli 2 til 26 prósent yfir útboðsgengi
Hlutafjárútboð Heimavalla fer fram í byrjun næstu viku. Leigufélagið hyggst afla um það bil milljarðs króna sem fara á í niðurgreiðslu skulda.

Bandarískur fjárfestingasjóður fjárfestir í Heimavöllum fyrir 300 milljónir króna
Upplýsingar um sjóðinn bundnar trúnaði.

Gætu fengið um 400 milljóna króna hlut
Hluthafar Heimavalla GP eiga rétt á árangurstengdri greiðslu í formi hlutar í leigufélaginu. Gætu fengið tveggja prósenta hlut ef útboðsgengið verður um 1,7 krónur á hlut. Hafa áður fengið um 480 milljónir fyrir ráðgjafastörf 2015 - 2017.