Stikla fyrir myndina var frumsýnd á föstudag. Vefsíðan Variety tryggði sér einkarétt á sýningu stiklunnar í sólarhring.
Kvikmyndin fjallar um kórstjóra á fimmtugsaldri sem ákveður að bjarga heiminum og lýsir yfir stríði gegn stóriðju í landinu. Hún er tilbúin til að fórna öllu fyrir móður jörð og hálendi Íslands, þar til munaðarlaus stúlka stígur inn í líf hennar.
„Þetta er einföld hetjusaga. Mig langaði að búa til meginstraums kvikmynd sem myndi þóknast öllum," segir Benedikt glettinn.
Kvikmyndin er frumsýnd 12. maí í Cannes, þar sem hún var valin til keppni í Critics' Week. Benedikt segir það stórkostlegan létti að hún hafi verið valin því mikil fjárhagsleg, persónuleg og listræn hætta fylgi þessu ferli. „Þetta þýðir að einhverjum þyki vænt um hana.“
Charles Tesson, listrænn stjórnandi Critics' Week, sagði dregna upp líflega, hjartnæma og frumlega mynd af konu á sama tíma og tekist er á við pólitísk málefni í myndinni en hún verður frumsýnd hér á Íslandi 23. maí.
Þrjár íslenskar kvikmyndir hafa áður tekið þátt í Critics' Week á Cannes. Það eru kvikmyndirnar Ingaló eftir Ásdísi Thoroddsen árið 1992, hin norsk-íslenska Vandræðamaðurinn eftir Jens Lien árið 2006 og fransk-íslenska stuttmyndin Víkingar eftir Magali Magistry árið 2013.