Á mynd 1 má sjá gildi Væntingavísitölu Gallup frá upphafi mælinga. Fyrsta gildi vísitölunnar í mars 2001 mældist 108,3 og má því segja að íslenskir neytendur hafi verið heldur jákvæðir í byrjun mælinga en þegar leið á árið 2001 þyngdust brúnir. Á fyrri hluta árs 2002 hækkaði vísitalan aftur og mældist yfir 100 stigum nær samfleytt til niðursveiflunnar 2006. Væntingavísitala Gallup hækkaði í kjölfar „litlu kreppunnar“ og náði hæsta gildi sínu, 155 stigum, í góðærinu í maí 2007.
Leitni vísitölunnar var svo niður á við frá miðju ári 2007 og féll hún niður í 23 stig í nóvember 2008 í fyrstu mælingu eftir bankahrun. Má því segja að neytendur hafi að einhverju leyti séð fyrir að staða efnahagsmála væri viðsjárverð. Frá hruni hefur verið stígandi í vísitölunni ef frá eru taldar nokkrar sveiflur eins og lækkun í kringum mótmælin í október 2010 og hækkun í kringum alþingiskosningar. Væntingavísitala Gallup hefur tilhneigingu til að hækka í aðdraganda alþingiskosninga þegar kjósendur vænta betri tíðar eins og sjá má á bláu súlunum. Undanfarin misseri hefur Væntingavísitala Gallup mælst há en frá miðju ári 2015 hefur gildi vísitölunnar samfleytt mælst yfir 100 stigum og vel það.

Þegar gildi Væntingavísitölu Gallup er greint eftir hópum kemur ýmislegt áhugavert í ljós. Karlar eru almennt jákvæðari en konur hvað mat á efnahags- og atvinnuástandi varðar og mælist gildi vísitölunnar hjá körlum nær undantekningarlaust hærra. Þannig mælist meðaltal vísitölunnar frá upphafi mælinga 105 stig hjá körlum en 84 stig hjá konum. Eftir því sem fólk er yngra mælist vísitalan að jafnaði hærri og íbúar á á suðvesturhorni landsins eru jákvæðari en þeir sem búa í öðrum landshlutum. Fólk með lengri menntun er almennt jákvæðara og eftir því sem fjölskyldutekjur eru hærri þeim mun hærra er gildi Væntingavísitölu Gallup.

Nú tíu árum eftir hrun eru íslenskir neytendur almennt bjartsýnir og tiltrú þeirra og væntingum svipar til aðstæðna í síðasta góðæri. Vonandi hafa þeir ástæðu til að halda fluginu áfram áður en komið er inn til mjúkrar lendingar eins og er nú tíðrætt.
Höfundur er sviðsstjóri fjölmiðla- og hagrannsókna hjá Gallup
