Alríkislögreglumennirnir sem gerðu húsleitir hjá lögmanni Donalds Trump Bandaríkjaforseta voru að leita að skjölum um greiðslur til tveggja kvenna sem segjast hafa átt í kynferðislegu sambandi við Trump. Þá eru þeir sagðir hafa verið á höttunum eftir gögnum um aðkomu útgefanda æsifréttablaðsins National Enquirer að því að þagga niður í annarri þeirra.
New York Times hefur eftir heimildarmönnum sínum að leitarheimild alríkislögreglunnar FBI hafi varðað mál Stephanie Clifford, klámmyndaleikkona, og Karen McDougal, Playboy-fyrirsætu, en þær segjast báðar hafa átt í sambandi við Trump árið 2006. Báðum var greitt til að þegja um samböndin rétt fyrir forsetakosningarnar árið 2016.
Michael Cohen, lögmaður Trump, segist hafa greitt Clifford 130.000 dollara úr eigin vasa fyrir þagmælsku hennar. Trump hefur sagt að hann hafi ekkert vitað af greiðslunni. Útgefandi National Enquirer, vinur Trump, gerði samkomulag við McDougal um kaup á sögu henni. Blaðið sagði hins vegar aldrei frá áskökunum hennar.
Þá segir New York Times að það hafi verið Rod Rosenstein, aðstoðardómsmálaráðherra, sem veitti persónulega heimild fyrir rassíunum á skrifstofu, íbúð og hótelherbergi Cohen. Rosenstein hefur umsjón með Rússarannsókninni svonefndu og hefur Trump gagnrýnt Rosenstein harðlega síðustu mánuði vegna hennar.
Það var ríkissaksóknari Bandaríkjanna fyrir New York-ríki sem stóð að húsleitunum í gær. Greint hefur verið frá því að Robert Mueller, sérstakur rannsakandi dómsmálaráðuneytisins, hafi komið upplýsingum til hans áfram sem hafi svo verið tilefni rassíanna.
Trump brást ókvæða við húsleitunum í gær og í morgun. Hann sagði fréttamönnum í gær, áður en fréttir af rassíunum voru á allra vitorði, að þær væru „árás á landið okkar“. Á Twitter í morgun fullyrti forsetinn að trúnaðarsamband lögmanns og skjóstæðings væri dautt í Bandaríkjunum vegna húsleitanna.
„ALGERAR NORNAVEIÐAR!!!“ básúnaði Trump einnig í tísti.
FBI var á höttunum eftir gögnum um greiðslur til meintra hjákvenna Trump

Tengdar fréttir

Meint hjákona Trump segir klámið hafa búið hana undir kastljósið
Stormy Daniels verður í viðtali í Sextíu mínútum í kvöld. Þar er búist við að hún tjái sig um sambandið við Donald Trump og tilraunir til að þagga niður í henni.

FBI réðst inn á skrifstofu lögmanns Bandaríkjaforseta
Einhver skjalanna, sem alríkislögreglan lagði hald á, tengjast greiðslum Bandaríkjaforseta til klámstjörnunnar Stormy Daniels.

Trump lýsir rassíu hjá lögmanni sínum sem árás á Bandaríkin
Bandaríkjaforseti sagðist myndu sjá til hvort hann ræki sérstakan rannsakanda dómsmálaráðuneytisins.

Playboy-fyrirsæta í mál til að geta tjáð sig um Trump
Áður hafði klámmyndaleikona höfðað mál til að losna undan samningi um þagmælsku sem hún skrifaði undir í aðdraganda forsetakosninganna árið 2016.

Bandaríkjaforseti segist ekki hafa vitað af greiðslu til klámleikkonu
Trump tjáði sig í fyrsta skipti opinberlega um greiðslur til Stephanie Clifford til að hún þegði um meint kynferðislegt samband þeirra í gær.