15 borgarfulltrúar eiga nú sæti í borgarstjórn Reykjavíkur en þeim fjölgar í 23 í sveitarstjórnarkosningunum í lok maí. Til þess að ná manni inn samkvæmt núverandi fyrirkomulagi þurftu flokkar á bilinu 7-6% fylgi en sá þröskuldur lækkar niður í rúmlega 4% með nýju fyrirkomulagi. Þá hafa aldrei fleiri framboð lýst yfir áhuga á að bjóða fram.
Sex flokkar eiga nú fulltrúa í borgarstjórn; Samfylkingin, Vinstri græn, Björt framtíð og Píratar sem mynda meirihluta auk Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina. Björt framtíð hyggst þó ekki bjóða fram í vor og Framsóknarflokkurinn býður fram undir styttra nafni. Þá hafa minnst níu til viðbótar lýst vilja til að bjóða fram; Miðflokkurinn, Viðreisn, Flokkur fólksins, Íslenska þjóðfylkingin, Alþýðufylkingin, Höfuðborgarlistinn, Frelsisflokkurinn, Sósíalistaflokkurinn og sérstakt kvennaframboð. Enn gætu fleiri bæst í hópinn eða aðrir fallið frá, en frestur til að skila inn framboðslista rennur út á hádegi þann 5. maí.

„Kosningabaráttan er ekki byrjuð, og um leið og hún byrjar þá fer maður að sjá meiri hreyfingar á milli flokka,” segir Eva. „Ef maður horfir á framboðin sem koma til greina, þau eru 14, það er ekki víst að þeim takist öllum að stilla upp lista að þá raðast þessi framboð nokkurn veginn frá lengst til vinstri til lengst til hægri. Þannig að ég held að maður ætti frekar að gera ráð fyrir að þetta verði spurning um hvort þetta verði miðju-hægri borgarstjórnarmeirihluti eða miðju-vinstri borgarstjórnarmeirihluti.”