„Þessi nýbygging markar tímamót fyrir bæði nemendur og starfsfólk í Klettaskóla. Hér er ekki bara risin glæsileg viðbygging sem fellur vel inn í umhverfið, heldur uppfyllir íþróttahúsið og sundlaugaraðstaðan allar nútímakröfur um aðgengi og þjálfun fyrir fatlaða nemendur og gjörbyltir aðstöðu þeirra til íþróttaiðkunar,“ sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Nýr íþróttasalur er 1.755 fermetrar og búinn margvíslegum æfingatækjum. Í sundlaugarsalnum eru tvær laugar og einn stór pottur. Stærsta laugin er 8m x 16,7m og er með fjórum brautum. Minni þjálfunarlaug er með lyftanlegum botni. Við opnun laugarinnar í dag sýndu nemendur æfingalaugina en íþróttafélagið Ösp mun hafa þar aðstöðu til sundþjálfunar.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdum við viðbyggingu verði að fullu lokið í ágúst þegar nýtt skólaár hefst. Arkitektastofan OG, VSÓ Ráðgjöf og Efla sáu um hönnun viðbyggingarinnar.
Klettaskóli er sérskóli á grunnskólastigi með fjölbreyttan hóp nemenda með ólíkar þarfir í námi, líkamlegri þjálfun og félagslífi sem kalla á mikinn sveigjanleika í húsnæði og öllum búnaði. Líkamleg hreyfing og þjálfun er nemendum afar mikilvæg og er aðstaðan með nýrri þjálfunarsundlaug og íþróttasal því afar kærkomin. Í Klettaskóla er aðstaða fyrir 80-100 nemendur en skólinn þjónar öllu landinu. Skólinn varð til við samruna Öskjuhlíðarskóla og Safamýrarskóla. Skólastjóri er Árni Einarsson.