Verzlunarskóli Íslands fór með sigur af hólmi í MORFÍs, mælsku- og rökræðukeppni framhaldsskólanna, í úrslitum keppninnar sem fram fóru í Háskólabíói í kvöld.
Aðeins munaði níu stigum á liði Verzló og liði Flensborgarskólans en heildarstigin í keppninni voru 4937. Verzló vann þó ekki á stigafjölda heldur á því að þrír af fimm dómurum keppninnar dæmdu þeim sigur.
Flensborg fékk hins vegar níu stigum fleiri í keppninni en svipuð staða kom upp í fyrra; þá dæmdu fleiri dómarar Flensborg sigur en Verzló hlaut fleiri stig.
Hafði Geir Finnsson, oddadómari, orð á því þegar hann kynnti úrslitin að keppnin hefði verið einhver sú jafnasta sem hann hefði dæmt.
Kristinn Óli Haraldsson, betur þekktur sem Króli, var valinn ræðumaður Íslands en hann var í liði Flensborgarskólans sem atti kappi við Verzló.
Ræðuefni kvöldsins var raunveruleikinn og mælti Flensborg með en Verzló á móti.
Fréttin hefur verið uppfærð þar sem upplýsingar um stigafjölda og úrslitin voru ekki rétt í upphaflegri útgáfu.