Brú yfir Skerjafjörð til að tengja Álftanes við miðborg Reykjavíkur hefur af og til verið reifuð opinberlega undanfarna áratugi meðal skipulagsfræðinga og áhugamanna um skipulagsmál, og í fyrra gerði Björn Jón Bragason stuttmynd um hugmyndina með grafískum myndum.
Loftlínan úr miðborg Reykjavíkur út á Álftanes er ekki nema um þrír kílómetrar, - helmingi styttri en loftlínan úr miðborginni út að Elliðaám. Tenging yfir Skerjafjörð þykir því freistandi kostur.

María Sveinsdóttir á Jörfa er ættuð frá Breiðabólsstöðum. Vill hún fá veg yfir Skerjafjörð?
„Mér finnst það þurfa. Mér finnst þetta allt of þröngt og lokað, - bara einn útgangur af Álftanesi. Og mér finnst það bara fyrir Reykjavík líka,“ svarar María.
Einar Ólafsson í Gestshúsum er af hinni ættinni og hann styður einnig brú.

Við spurðum einnig Önnu Ólafsdóttur Björnsson hvað hún héldi um afstöðu íbúa Álftaness:
„Það er afskaplega misjafnt eftir fólki. Ég verð að viðurkenna það að ég er alltaf skotnust í hugmyndinni um að fá ferju yfir Skerjafjörðinn. Það er minn draumur, algerlega. Litla, óáreitna, góða ferju,“ svarar Anna.

„Nei, það þarf ekkert endilega að vera, þó að brautin færi hér einhversstaðar fyrir austan okkur,“ svarar Einar í Gestshúsum.
„Það er hægt að þétta hérna. Það er nóg pláss,“ svarar María og bendir á allt óbyggða svæðið í kringum sig.
María býr raunar næst þeim stað þar sem vegurinn myndi að líkindum ná landi á Álftanesi.
„Það hlýtur að verða meiri byggð hérna. Einhvern veginn sé ég það fyrir mér. Þessi vegur kemur yfir eyrina hérna. Þið sjáið hvað þetta er stórt og mikið svæði. Að leggja veg hérna yfir, það er ekki verið að eyðileggja neitt. Það eru engin hús komin hér. Það er pláss fyrir þetta,“ segir María.
Fjallað var um Álftanes í þættinum „Um land allt" í kvöld.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2 um Skerjafjarðarbrú: