Þegar Comey var rekinn í maí í fyrra byggðist ákvörðun Trump formlega á minnisblaði sem Rod Rosenstein, aðstoðardómsmálaráðherra, skrifaði. Í því var vísað til mistaka sem Comey hafi gert við meðhöndlun á rannsókn á tölvupóstum Hillary Clinton frá þeim tíma þegar hún var utanríkisráðherra.
Ekki leið hins vegar á löngu þangað til Trump kastaði því yfirskini fyrir róða og lýsti því fyrir fréttamanni NBC-sjónvarpsstöðvarinnar að það hafi í raun og veru verið rannsókn FBI á meintu samráði forsetaframboðs hans við rússnesk stjórnvöld sem hafi orðið til þess að hann hafi ákveðið að reka Comey.
„Reyndar þegar ég ákvað að gera það bara þá sagði ég við sjálfan mig, ég sagði: „Þú veist, þetta Rússlandsmál með Trump og Rússland er skálduð saga. Þetta er afsökun demókrata fyrir því að hafa tapað kosningum sem þeir hefðu átt að vinna,“ sagði Trump í viðtalinu við NBC.
Það var var brottrekstur Comey sem varð til þess að Robert Mueller var skipaður sérstakur rannsakandi dómsmálaráðuneytisins og falið að halda Rússarannsókninni áfram.
Hefur kallað Comey „óþokka“ og „útsmoginn“
Comey hefur verið mikið í fréttum síðustu daga en æviminningar hans komu út á bók í gær. Í henni gagnrýnir Comey Trump harðlega og segir hann ekki siðferðislega hæfan til að gegna embætti. Trump hefur farið mikinn gegn Comey á Twitter og kallað hann „óþokka“ og „lygara“ og „útsmoginn“.Áfram hélt Trump í dag en í mótsögn við það sem hann hafði áður sagt um ástæður þess að hann rak Comey.
„Útsmogni James Comey, versti FBI-forstjóri sögunnar, var ekki rekinn út af gervi-Rússrannsókninni þar sem, vel á minnst, það var ekkert SAMRÁÐ (nema hjá demókrötum)!“ tísti Trump.
Slippery James Comey, the worst FBI Director in history, was not fired because of the phony Russia investigation where, by the way, there was NO COLLUSION (except by the Dems)!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) April 18, 2018
Flynn hafði verið rekinn strax í febrúar í fyrra eftir að í ljós kom að hann hefði ekki greint satt og rétt frá samskiptum sínum við rússneskan sendiherra. Trump hafði sagt að Flynn hefði logið að Mike Pence, varaforseta, og því hefði hann þurft að fara.
Í tísti í desember sagði Trump hins vegar að Flynn hefði bæði logið að Pence og alríkislögreglunni FBI og því hafi hann verið rekinn. Flynn hafði þá verið ákærður fyrir að ljúga að alríkislögreglunni.
Hafi Trump vitað af því að Flynn hafi gerst sekur um lögbrot með því að ljúga að FBI á þeim tíma þegar hann rak Comey þótti það vísbending um að ákvörðun hans um að reka Comey hafi verið tilraun til að hindra framgang réttvísinnar.
Hér fyrir neðan má sjá viðtal NBC við Trump frá því í fyrra þar sem hann vísar til Rússarannsóknarinnar sem ástæðu fyrir brottrekstri Comey.