Handbolti

Aron segir handboltagreind og kraft einkenna nýliðana í landsliðinu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handbolta, fer með mjög ungt lið til leiks í Gulldeildina í Noregi um helgina en strákarnir okkar flugu út í morgun.

Þar mætir Ísland þremur af bestu liðum heims; Noregi, Frakklandi og Danmörku, en íslenska liðið mætir með marga nýliða til leiks sem verður hent í djúpu laugina.

Táningarnir Gísli Þorgeir Kristjánsson (18 ára) og Haukur Þrastarson (16 ára) munu væntanlega sjá um að stýra sóknarleik íslenska liðsins en í liðinu er einnig hinn 19 ára gamli Teitur Örn Einarsson og 18 ára gamall markvörður, Viktor Gísli Hallgrímsson.

Þessir ungu menn hafa fengið mikið að spila með sínum liðum í Olís-deildinni undanfarin misseri og mæta því ekki alveg reynslulausir til leiks með landsliðinu. Þetta eru spennandi strákar að mati besta handboltamanns þjóðarinnar, Arons Pálmarssonar.

„Ég verð að segja það, að þeir líta mjög vel út. Það sem ég er ánægðastur með er handboltagreindin hjá þeim. Þeir skilja leikinn og það þarf ekki að segja þeim hlutina oft,“ segir Aron.

„Maður sér að þessir strákar komu vel undirbúnir til leiks. Það er kraftur í þeim. Auðvitað eru þeir ungir en það verður gaman að fara með þeim og spila á móti þessum bestu þjóðum.“

Stefán Rafn Sigurmannsson er fæddur 1990 eins og Aron en báðir eru reynsluboltar í landsliðinu. Hann tekur í sama streng og vinur sinn úr Hafnarfirðinum.

„Þeir eru hrikalega ferskir og rosalega sterkir maður á mann og góðir skotmenn. Mér líst rosalega vel á þetta,“ segir Stefán Rafn.


Tengdar fréttir

Gummi Gumm: Framtíðin er björt

Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari Íslands í handbolta, þurfti að gera breytingar á hópnum sem fer til Noregs og tekur þátt í Gulldeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×