Erlent

Bandaríkjastjórn ætlar að setja rússneska ólígarka í straff

Kjartan Kjartansson skrifar
Alexei Miller, forstjóri orkurisans Gazprom, (t.v.) er á lista Bandaríkjastjórnar yfir rússneska ólígarka. Hann gæti orðið einn af þeim sem fá að kenna á refsiaðgerðunum.
Alexei Miller, forstjóri orkurisans Gazprom, (t.v.) er á lista Bandaríkjastjórnar yfir rússneska ólígarka. Hann gæti orðið einn af þeim sem fá að kenna á refsiaðgerðunum. Vísir/AFP
Búist er við því að Bandaríkjastjórn tilkynni um refsiaðgerðir gegn rússneskum auðjöfrum vegna afskipta Rússa af forsetakosningunum árið 2016 í þessari viku. Refsiaðgerðirnar eiga að verða þær hörðustu gegn ólígörkunum svonefndu fram að þessu.

Reuters-fréttastofan segir að aðgerðirnar komi til með að hafa áhrif á suma nána bandamenn Vladímírs Pútín, forseta Rússlands. Refsiaðgerðirnar hvíla á grunni laga sem bandarískir þingmenn samþykktu nær einróma sem áttu að refsa Rússum fyrir afskipti af kosningunum, innlimun Krímskaga árið 2014 og aðild þeirra að borgarastríðinu í Sýrlandi.

Áður hafði Bandaríkjastjórn gripið til refsiaðgerða gegn nítján einstaklingum og fimm stofnunum í mars vegna tölvuárása Rússa undanfarin tvö ár. Þær aðgerðir voru gagnrýndar fyrir að ná ekki til ólígarkanna og embættismanna í rússnesku ríkisstjórninni.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur verið ragur við að gagnrýna Pútín eða Rússa opinberlega, jafnvel þó að ríkisstjórn hans hafi gripið til aðgerða sem þessara. Hann hefur talað um mikilvægi þess að bæta samskiptin við Rússa.

Saksóknarar hafa yfirheyrt ólígarka í tengslum við Rússarannsóknina

Sakamálarannsókn stendur nú yfir á því hvort að forsetaframboð Trump hafi átt í samráði við rússnesk stjórnvöld árið 2016. Rússar hafa neitað því að hafa reynt að hafa áhrif á kosningarnar og Trump hefur margendurtekið kallað rannsóknina „nornaveiðar“.

Robert Mueller, sérstakur rannsakandi dómsmálaráðuneytisins, sem stýrir Rússarannsókninni svonefndu hefur undanfarið stöðvað að minnsta kosti tvo rússneska auðjöfra sem hafa komið til Bandaríkjanna og yfirheyrt þá.

Á meðal þess sem Mueller er sagður kanna er hvort að fé hafi verið veitt í gegnum ólígarkana eða bandaríska milliliði til framboðs Trump. Bandarísk stjórnmálaframboð mega ekki taka við styrkjum frá erlendum aðilum.


Tengdar fréttir

Enn rífst Trump og skammast á Twitter

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hellti í dag og í gær úr skálum reiði sinnar vegna rannsóknar Robert Mueller, sérstaks saksóknara, á afskiptum Rússa af forsetakosningunum 2016




Fleiri fréttir

Sjá meira


×