Sport

Grínisti læddist inn á heimili eins fremsta íþróttamanns Breta og vakti hann með látum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sir Andy Murray.
Sir Andy Murray. Vísir/Getty
Grínistinn Michael McIntyre tekur upp á ýmsu og á dögunum leyfði hann sér að ganga ansi langt í að bregða einum fremsta íþróttamanni bresku þjóðarinnar.

Tennisleikarinn Sir Andy Murray fékk þá óvænta heimsókn frá Michael McIntyre sem var að taka upp efni fyrir söfnunarátakið Sport Relief 2018.

Stóra málið er að Andy Murray var steinsofandi í lokuðu svefnherbergi sínu þegar McIntyre læddist inn til hans og vakti hann með látum. Það má sjá þetta hér fyrir neðan.







Andy Murray tók þessu nokkuð vel. „Þegar ég lagðist á koddann þá var Michael McIntyre örugglega síðasti maðurinn sem ég bjóst við að sjá við rúmfótinn þegar ég vaknaði,“ sagði Andy Murray við Radio Times.

„Um leið og ég náði að jafna mig á sjokkinu og vaknaði almennilega þá var þetta bara skemmtilegt. Það er frábært ef okkur tekst með þessu að safna pening fyrir verðugt málefni,“ sagði Murray.

Andy Murray hefur unnið þrjá risatitla á ferlinum þar af Wimbledon-mótið tvisvar sinnum. Murray varð líka Ólympíumeistari í tennis á síðustu tveimur leikum í London og Ríó.

Andy Murray hefur verið frá vegna meiðsla síðasta rúma árið en hann endaði árið 2016 sem sá besti í heimi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×