Taka átti dæmda morðingjann Doyle Hamm af lífi í Alabamaríki Bandaríkjanna í lok febrúar. Hamm er krabbameinssjúklingur og fyrrum sprautufíkill, en æðar hans reyndust svo illa farnar að böðlarnir gátu með engu móti sprautað í hann eitrinu. Það var þó reynt til hins ýtrasta, en aðkomunni hefur verið lýst sem hrottalegri eftir að búið var að stinga og blóðga fangann víðs vegar um líkamann árangurslaust. Bandaríkin eru eina vestræna lýðræðisríkið sem enn stundar aftökur af fullum krafti.
„Þær eru alltaf brot á réttinum til lífs og virðingu og mannhelgi fyrir lífi fólks,“ segir Anna Lúðvíksdóttir framkvæmdastjóri Amnesty á Íslandi.
Ber ekki árangur
Árið 2016 voru minnst 1032 líflátnir í 23 löndum. Aftökur í Kína eru ekki taldar með enda gefa þeir engin opinber gögn út um málið. Þó er talið að fjöldinn þar nemi að lágmarki 1000 manns á ári. Fjölmörg ríki beita enn dauðarefsingum fyrir glæpi á borð við spillingu og fíkniefnainnflutning en í Bandaríkjunum er hún bundin við manndráp og landráð. Forsetinn hefur þó nokkrum sinnum lýst áhuga á víðtækari notkun, síðast fyrir um viku síðan.„Sum lönd eru með miklu harðari refsingar, hörðustu refsinguna, og glíma við minni eiturlyfjavandamál en við.“
Stuðningur við dauðarefsingar hefur farið minnkandi í Bandaríkjunum undanfarin ár, en auk þess hefur yfirvöldum reynst erfitt að útvega eitur í aftökur frá evrópskum framleiðendum. Stuðningsmenn þeirra benda hins vegar á að þær dragi úr glæpatíðni.
„Allar rannsóknir benda til þess að þetta ber engan árangur. Dauðarefsingin fælir ekki frá, minnkar ekki ofbeldi og glæpi heldur elur á ofbeldi,“ segir Anna.