Innlent

Komu böndum á skiltið við Hlemm

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá aðgerðum á vettvangi í kvöld.
Frá aðgerðum á vettvangi í kvöld. Vísir/Egill
Björgunarsveitarmenn, sem kallaðir voru til aðstoðar þegar skilti utan á hótelinu Hlemmur Square í miðborg Reykjavíkur losnaði frá byggingunni í veðurofsa í kvöld, reyrðu skiltið niður svo það haggast ekki lengur í vindi.

Fyrst stóð til að ná skiltinu niður en að sögn lögregluþjóns, sem stóð vaktina á vettvangi í kvöld, var gripið til þess ráðs að binda skiltið fast og bíða með frekari aðgerðir þangað til veðrinu slotar.

Lögregluþjónninn gerði ráð fyrir að kranabíll yrði kallaður til á morgun, eins og gert var í kvöld, og skiltið tekið niður í fyrramálið. Snör handtök björgunarsveitarmanna á vettvangi má sjá í myndbandinu hér að neðan.

Mikill fjöldi vegfarenda safnaðist saman við Hlemm Square í kvöld og fylgdist með aðgerðum. Svæðið næst skiltinu var girt af til að koma í veg fyrir að það félli á fólk. Lögreglumaður á svæðinu sagði í samtali við Vísi fyrr í kvöld að skiltið hefði „sveiflast eins og lauf í vindi“ en suðaustan hvassviðri gengur nú yfir landið með talsverðri rigningu.

Þá hefur slökkvilið höfuðborgarsvæðisins sinnt fjölda útkalla í kvöld vegna veðurs. Flest útköllin eru í austurhluta borgarinnar þar sem er mikill vatnsagi en fimm til átta útköll hafa verið í bið að meðaltali það sem af er kvöldi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×