Innlent

Listi Sam­fylkingarinnar fyrir borgar­stjórnar­kosningar sam­þykktur

Birgir Olgeirsson skrifar
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri leiðir listann en hann varð efstur í flokksvali sem haldið var fyrr í mánuðinum.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri leiðir listann en hann varð efstur í flokksvali sem haldið var fyrr í mánuðinum. Aðsend
Framboðslisti Samfylkingarinnar fyrir borgarstjórnarkosningar í vor var samþykktur samhljóða og með lófataki í dag, á fundi á Hótel Natura. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri leiðir listann en hann varð efstur í flokksvali sem haldið var fyrr í mánuðinum. Í efstu fimm sætunum sitja borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, á eftir Degi koma Heiða Björg Hilmisdóttir, Skúli Helgason, Kristín Soffía Jónsdóttir og Hjálmar Sveinsson. Er sú röð í samræmi við niðurstöðu flokksvalsins.

Í næstu sætum þar fyrir neðan sitja Sabine Leskopf, varaborgarfulltrúi, Guðrún Ögmundsdóttir, fyrrverandi alþingiskona og Magnús Már Guðmundsson varaborgarfulltrúi. Í níunda sæti situr Ragna Sigurðardóttir, formaður Stúndentaráðs Háskóla Íslands og í tíunda sæti Ellen Jacqueline Calmon, fyrrverandi formaður Öryrkjabandalags Íslands.

Listinn er skipaður 20 körlum og 26 konum. Af öðrum frambjóðendum sem vekja athygli eru meðal annarra Guðjón Friðriksson, sagnfræðingur, Steinunn Ása Þorvaldsdóttir, sjónvarpskona og aktívisti, Guðrún Ásmundsdóttir, leikkona, Berglind Eyjólfsdóttir, lögreglukona, Stefán Benediktsson og Ellert B. Schram, sem báðir eru fyrrverandi alþingismenn, Margrét Pálmadóttir, kórstjóri, og í heiðurssætinu situr Steinunn Valdís Óskarsdóttir, fyrrverandi borgarstjóri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×