Kosningu lauk kl. 19 í dag, laugardaginn 10. febrúar, og kusu 1852 félagsmenn í flokksvalinu. Kjörsókn var 33,55%. Auð og ógild atkvæði voru 7.
Atkvæði í fimm efstu sæti féllu þannig:
1. sæti: Dagur B. Eggertsson með 1610 atkvæði í fyrsta sæti, eða 87 prósent
2. sæti: Heiða Björg Hilmisdóttir með 1126 atkvæði í fyrsta og annað sæti
3. sæti: Skúli Helgason með 708 atkvæði í fyrsta til fjórða sæti
4. sæti: Kristín Soffía Jónsdóttir með 732 atkvæði í fyrsta til fimmta sæti
5. sæti: Hjálmar Sveinsson með 779 atkvæði í fyrsta til fimmta sæti
Úrslit kosninganna í heild sinni má sjá í töflunni hér að neðan.

Hörð barátta um 2.-4. sætið
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri gaf einn kost á sér í forystusæti listans og hreppti það. Heiða Björg Hilmisdóttir borgarfulltrúi og varaformaður Samfylkingarinnar og Kristín Soffía Jónsdóttir borgarfulltrúi sóttust báðar eftir öðru sætinu.
Þá var hörð barátta um þriðja sætið en þrír sóttust eftir því sæti, þeir Skúli Helgason borgarfulltrúi, Aron Leví Beck málari og byggingarfræðingur og Hjálmar Sveinsson borgarfulltrúi. Að auki vildi Sabine Leskopf varaborgarfulltrúi þriðja til fjórða sæti.
Borgarfulltrúum verður fjölgað úr 15 í 23 í kosningunum í vor og samkvæmt könnun Gallups fyrir Viðskiptablaðið myndu Samfylkingin, Píratar og Vinstri græn halda meirihluta í borginni. Samfylkingin fengi þar sjö fulltrúa.
Fréttin hefur verið uppfærð.