HK lyfti sér upp fyrir ungmennalið Hauka, eða Hauka U, í Grill 66-deild karla í handbolta í gærkvöldi með tveggja marka sigri í Digranesi, 23-21.
Haukar U eru eitt besta lið deildarinnar en það er nú í fjórða sæti með 17 stig, stigi á eftir HK og sex stigum á eftir toppliði Akureyrar. Haukarnir mega þó hvorki fara upp um deild né taka þátt í umspilinu.
Eitt marka Hauka U í gærkvöldi skoraði Jóhannes Damian Patreksson sem þjóðin kannast við í dag sem rapparann JóiPé. Jóhannes er sonur Patreks Jóhannessonar, fyrrverandi atvinnu- og landsliðsmanns, sem þjálfar Selfoss í dag.
Jóhannes, sem er fæddur árið 2000, þykir mikið efni en hann er mikill skrokkur eins og pabbi sinn og er harður í horn að taka í vörninni. Hann er nú búinn að skora ellefu mörk í fimm leikjum í Grill 66-deildinni sem er næst efsta deild Íslandsmótsins.
Hér að ofan má sjá markið sem JóiPé skoraði fyrir Hauka U í gær en hann læðist á milli varnarmanna af miklum krafti og skorar á milli fóta markvarðarins.
