Innlent

Fjórir enn í haldi grunaðir um frelsissviptingu og líkamsárás

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá aðgerðum lögreglunnar á Akureyri síðastliðinn föstudag.
Frá aðgerðum lögreglunnar á Akureyri síðastliðinn föstudag. vísir/auðunn
Fjórir menn eru enn í gæsluvarðhaldi grunaðir um líkamsárás og frelsissviptingu á fimmtudaginn í liðinni viku.

Að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni á Norðurlandi eystra voru sakborningar í málinu yfirheyrðir í gær og fyrradag en þeir voru handteknir á Akureyri á föstudag og hafa setið í gæsluvarðhaldi síðan á laugardag. Samhliða yfirheyrslum yfir hinum grunuðu í málinu hafa gagnaöflun og skýrslutökur af vitnum farið fram.

Tveir mannanna sem eru í haldi kærðu úrskurð Héraðsdóms Norðurlands eystra um gæsluvarðhald síðastliðinn laugardag til Landsréttar í því skyni að fá hann felldan úr gildi. Landsréttur hefur tekið mál þeirra tveggja til meðferðar og er því niðurstöðu þaðan að vænta. Þá kærðu hinir tveir sakborninganna úrskurð Héraðsdóms til Landsréttar síðastliðinn mánudag.

Rannsókn málsins heldur áfram en það er ennþá mat lögreglunnar að ekki sé hægt að greina frá efnisatriðum þess á þessu stigi. Unnið er í kappi við tímann á meðan beðið er niðurstöðu Landsréttar.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×